146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[11:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og öðrum þingmönnum þátttökuna í þessum umræðum. Svör við mörgum af þeim fyrirspurnum sem komu fram rakti ég í upphafserindi mínu, það hefur bara farið fram hjá einhverjum hv. þingmönnum.

Út af þessari umræðu vil ég segja að það var svolítið sérstakt að heyra í sumum þingmönnum því að hvað sem okkur finnst um Brexit til eða frá þá gengu þær svartsýnisspár um Brexit sem voru uppi fyrir kosningarnar ekki eftir. Það var sérstök umræða í breskum þjóðmálum um það hvernig framganga sérfræðinga var og sumir hafa beðist afsökunar á því hverju þeir spáðu vegna þess að það gekk ekki eftir. Ég veit ekki til þess verið að sé að spá nokkurs staðar annars staðar hvað varðar Breta eins og þingmenn gera hér í þingsal.

Aðalatriðið er þetta: Við byrjuðum að undirbúa þetta í tíð síðustu ríkisstjórnar undir forystu þáverandi utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Við höfum haldið því áfram, ekki aðeins í utanríkisþjónustunni heldur í öllu stjórnkerfinu. Við höfum sömuleiðis sótt á alla þá aðila, talað við alla þá aðila sem að málinu koma, eins og ég rakti sérstaklega. Viðhorf þeirra hafa verið mjög jákvæð. Viðhorf Breta hafa verið mjög jákvæð þegar kemur að þeim samskiptum. Við getum ekki kvartað undan þeim samskiptum eða viðhorfum.

Af því að menn tala um einstaka hluti þá setjum við markið hátt. Við erum ekki mætt þarna til að vera í vörn, við ætlum að fara í sókn. Við ætlum að reyna að fá meiri aðgang og betri samskipti. Hver niðurstaðan verður verður að koma í ljós. Við munum gera okkar besta, það er alveg á hreinu.

Sama með Evrópusambandið. Við getum ekki kvartað yfir þeim viðhorfum sem við höfum fengið þar í samskiptum okkar eða hjá EFTA-ríkjunum, en það á eftir að vinna úr þeim hlutum.

Hv. þingmaður spurði, sem mér fannst áhugavert, hvort við ætluðum að styrkja aðra markaði. Mér finnst þetta vera kjarnamál, alveg sama hvað gerist varðandi fríverslunina við Breta, við þurfum að sinna því betur. Þess vegna erum við m.a. í þessu mati okkar á utanríkisþjónustunni og höfum lagt á það áherslu varðandi þá framtíðarfríverslunarsamninga sem verða gerðir í kjölfar útgöngu Breta að við og EFTA-ríkin getum notið góðs af þeim. En aðalatriðið er þetta: (Forseti hringir.) Við getum nýtt þá fríverslunarsamninga sem við erum með núna betur. Við þyrftum að ræða það sérstaklega, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) í þessum þingsal. Að því stefnum við.