146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er nú svo að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur ekki tekið tillit til allra umsagna um málið eins og hv. þm. Birgir Ármannsson heldur fram, enda var hv. velferðarnefnd beðin um umsögn um málið. Eins og fram hefur komið hér þá voru gestir fengnir til nefndarinnar vegna málsins, en eftir það hefur ekki verið lögð áhersla á að klára þessa umsögn frá hv. velferðarnefnd. Minni hluti hv. velferðarnefndar hefur óskað eftir umsögnum frá þessum aðilum um breytt mál. Ég vil þakka stjórn hv. velferðarnefndar að verða við því.

Mér finnst að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar eigi að draga málið til baka til nefndarinnar meðan við bíðum eftir því að þessir hagsmuna- og umsagnaraðilar komi því á framfæri sem þeir hafa um málið að segja svo að velferðarnefnd Alþingis, alla vega minni hluti nefndarinnar, geti skilað inn sinni umsögn. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að meiri hluti (Forseti hringir.) velferðarnefndar Alþingis er hlynntur málinu og öll stjórn hv. velferðarnefndar Alþingis er á málinu.