146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

United Silicon.

[15:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er alveg rétt, íbúasamtök hafa ekki verið sátt. Auðvitað hafa þau ekki góða reynslu af fyrirtækinu. Hv. þingmaður man það kannski að ég tók undir með íbúum þegar ég lýsti því yfir að mér fyndist nóg komið og að loka þyrfti verksmiðjunni og úrbætur gerðar. Það var gert. Hv. þingmaður veit kannski líka að Umhverfisstofnun lokaði á grundvelli mikilla kvartana frá íbúum vegna óþæginda. Svo hefur Umhverfisstofnun gefið leyfi, að mér skilst, til þess að hún fari af stað aftur að því undangengnu að norskt ráðgjafarfyrirtæki geri sjálfstæða og óháða úttekt á verksmiðjunni og meti úrbótaáætlanir. Svo virðist vera sem þær séu samþykktar og að verið sé að reyna aftur.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns: Nei, það er ekki í lagi að almenningur sé hafður sem tilraunadýr, enda hef ég alltaf tekið það skýrt fram og krafist úrbóta þegar það átti við. Mér skilst að verið sé að skoða hvort þær úrbætur sem gerðar hafa verið í samráði við norska ráðgjafarfyrirtækið séu nægjanlegar, að nú sé verið að setja verksmiðjuna í gang til þess að kanna það. Svo verður Umhverfisstofnun að meta það með mengunarmælingum hvort fyrirtækið fari að lögum og reglum eftir þessar úrbætur eins og því er skylt að gera.