146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

vegabréf.

405. mál
[18:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd ritar undir meirihlutaálit í þessu máli. Við teljum sjálfsagt mál að Þjóðskrá bjóði út framleiðslukerfi vegabréfa til þess að hægt sé að tryggja þjónustu við almenning við að afla sér þessara nauðsynlegu gagna.

Ég má samt með til með að ræða aðeins ferli þessa máls, eins og kom fram í máli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, því að ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta svo vandræðalegt að ég roðna ofan í tær. Við höfum átt hér 1. umr. við ráðherra, aðallega um það hvort væri ekki hagkvæmara að ríkið myndi kaupa þessi tæki frekar en að leigja þau, eins og stendur í greinargerð með frumvarpinu, og ráðherrann hefur verið mataður á röngum upplýsingum. Ef ég er að roðna af vandræðalegheitum get ég rétt ímyndað mér hvernig ráðherranum líður að hafa verið sendur hingað með handónýta greinargerð úr ráðuneytinu. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð af hendi framkvæmdarvaldsins og eitthvað sem ég reikna með að verði tekið til skoðunar innan ráðuneytisins. Ég er ekki spenntur fyrir því að þetta endurtaki sig, að greinargerð með frumvarpi sé bókstaflega á haus, það sé talað sé um leigu þegar í raun er um kaup að ræða.

Þá langar mig að nefna hversu skemmtilegt ósamræmi birtist stundum í því hvaða mál er erindi að taka upp innan þings og hvaða ekki, orðalagið byrgir okkur kannski sýn. Hér er frumvarp um samninga á framleiðslu vegabréfa. Frú forseti, þetta er frumvarp um að stofnun ríkisins megi kaupa prentara og pappír, mjög sérhæfðan prentara og mjög sérhæfðan öryggispappír, en í grunninn er þetta það. Þetta er prentari sem ásamt pappírskostnaði yfir átta ára tímabil kostar ríkið eitthvað um milljarð. Í stóra samhenginu er það ekkert svo rosalega mikið, þetta eru 120 milljónir eða svo á ári, en þetta þykir vera nógu viðamikið mál til að koma til kasta Alþingis á meðan mál sem sumum þykja jafnvel viðameiri, eins og það hvort eigi að leyfa einkaaðilum að yfirtaka opinberan framhaldsskóla, eiga ekki að fá neinn stimpil Alþingis í þremur umræðum líkt og það hvort Þjóðskrá megi kaupa nýjan prentara.

Þessi túlkun er líka eitthvað sem verður að taka til rækilegrar skoðunar, væntanlega á vettvangi fjármálaráðuneytis og fjárlaganefndar, af því að ástæðan fyrir því að þetta frumvarp var lagt fram er sú að ráðuneytið túlkar lög um opinber fjármál þannig að samningar sem skuldbinda ríkið til lengri tíma en fimm ára séu þess eðlis að það verði að koma með þá til Alþingis. Þannig samningar eru dálítið margir hjá hinu opinbera, allir leigusamningar á húsnæði t.d..

Mig minnir að það hafi verið núverandi hæstv. forsætisráðherra sem einhvern tímann í tengslum við innleiðingu laga um opinber fjármál nefndi dæmi um það að einhverjir golfklúbbar væru alltaf að banka upp á hjá fjárlaganefnd þegar fjárlagavinnan stæði yfir og mesti tími nefndarinnar færi í það að rífast um það hvort klúbburinn ætti að fá hálfa milljón eða 700 þúsund það árið. Lög um opinber fjármál væru hugsuð til þess að færa þessa smástýringu frá Alþingi þannig að Alþingi væri bara í því að leggja stóru línurnar. Ef reyndin er sú að lög um opinber fjármál kalla á það að allar stofnanir ríkisins banki hér upp á ef þær vilja skuldbinda sig til þess að leigja húsnæði í meira en fimm ár, þá held ég að við séum nú komin ansi langt frá því markmiði laga um opinber fjármál að þingið sé ekki að vasast í smáatriðum í rekstri stofnana. Sama þykir mér í raun um þetta mál, að það þurfi heimild þingsins til að Þjóðskrá kaupi prentara og pappír.

Svo vil ég velta upp hugleiðingum sem komu fram við afgreiðslu nefndarinnar um það hvort það að þetta frumvarp sem er hingað komið sé líka ein birtingarmynd þess hversu strangur rammi fjármálaáætlunar er. Við höfum séð það þegar við höfum rýnt í tölur á því málefnasviði sem Þjóðskrá er á að ekki er mikið svigrúm til nokkurs skapaðs hlutar. Einskiptiskostnaður upp á þennan sirka milljarð sem prentarinn kostar myndi því reyna dálítið á ramma málefnasviðsins.

Þá velti ég fyrir mér, forseti, er það bara ekki allt í lagi? Er ekki ríkið alveg í aðstöðu til þess að þenja út rammann þegar þannig árar að það þurfi akkúrat að fjárfesta fyrir milljarð í nýjum græjum, svo er hægt að draga hann saman á næsta ári? Eða er einhver hreintrúarstefna í gangi varðandi það hvernig þessi rammi er útbúinn utan um opinber útgjöld þannig að ekki einu sinni þetta eina litla tæki Þjóðskrár rúmast innan hans? Þá hlakka ég ekki til þess að sjá stofnanir ekki bara banka upp á þegar þær eru með samninga upp á meira en fimm ár, það yrði nú ærið löng biðröð, heldur líka þegar þær eru að fjárfesta í stærri nauðsynlegum hlutum sem hljóta ekki náð fyrir augum fagráðuneytis síns eða fjármálaráðuneytisins.

Að því sögðu vil ég aftur ítreka þá afstöðu okkar í Vinstri grænum að þetta mál megi að meinalausu fljóta í gegn þótt ýmislegt í kringum það sé með ólíkindum.