146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir hluttekningarorð þingmanna og samúðarkveðjur forseta til Breta vegna hinna hörmulegra atburða í Manchester í gærkvöldi, en ætla að öðru leyti að ræða aðeins störf þingsins, einmitt nákvæmlega störf þingsins. Ég fæ ekki betur séð en að sú fjármálaáætlun sem á að vera aðalumræðuefni dagsins í dag sé í hreinu uppnámi. Á innsíðu Morgunblaðsins í dag er fullyrt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins styðji ekki fjármálaáætlunina í óbreyttri mynd. Sú var tíðin a.m.k. að tekið var mark á Morgunblaðinu þegar kom að upplýsingum úr innyflum Sjálfstæðisflokksins. Í gær kom hér í þinginu skýrt í ljós að hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, stendur ekki við bakið á fjármálaráðherra sínum varðandi ríkisfjármálaáætlun og gaf algjörlega upp að til stæði að falla frá væntum virðisaukaskattsbreytingum á ferðaþjónustuna eða slaka þar til. Með öðrum orðum, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Viðreisnar, stendur aleinn, yfirgefinn á sviðinu, á evrubolnum sínum, og enginn í þessari ríkisstjórn ber blak af áformum hans. Með öðrum orðum aftur, frú forseti, málið er í algjöru uppnámi. Fjármálaáætlunin er í uppnámi, ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um neitt og forseti þingsins gerði við þessar aðstæður rétt í því að fresta fundi. Og forsætisráðherra landsins gerði við þessar aðstæður rétt í því að rjúfa þing og boða til kosninga.

Þetta er ónýt ríkisstjórn, kemur sér ekki saman um neitt, hefur tekist að verða ótrúlega sundruð á örfáum mánuðum. Það er stórhættulegt fyrir landið að búa við ónýta ríkisstjórn meðan ójafnvægið hleðst upp í hagkerfinu og endar með þeim mun meiri ósköpum sem lengur dregst að taka á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)