146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 frá 2. minni hluta fjárlaganefndar. Hugmyndafræðin á bak við fjármálaáætlun gengur út á að útgjaldarammar séu settir, á grundvelli samþykktrar fjármálastefnu, fyrir 34 málefnasvið til næstu fimm ára og í framhaldinu er lagt fram fjárlagafrumvarp. Fullt samræmi þarf að vera á milli fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Fjármálaáætlun á að setja fram með skýrum og gagnsæjum hætti og hún á jafnframt að vera í fullu samræmi við lög um opinber fjármál en grunngildi þeirra eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Forgangsröðun verkefna á vegum ríkisins ætti að byggjast á ítarlegum þarfagreiningum sem og arðsemisútreikningum, mati á hagsveifluáhrifum og margfeldisáhrifum. Spálíkön sem notuð eru til grundvallar þurfa að endurspegla það sem á raunverulega að spá fyrir um. Markmið hins opinbera þurfa að vera auðsæ, hlutlæg og mælanleg. Sé sú ekki raunin kemur það niður á gagnsæinu og skapar óhagræði og aukna óvissu í ríkisrekstri. Fjölmörg verkefni sem nefnd eru í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, svo sem hraður vöxtur ferðaþjónustunnar, sterkt gengi krónunnar, spenna á vinnumarkaði, verðhækkanir á húsnæðismarkaði og áhrif öldrunar á þjóðina, kalla á ítarlega sviðsmyndagreiningu og mat á áhrifum þeirra. Fjármálaáætlunin uppfyllir ekki ofangreindar kröfur um gagnsæi, greiningar og mat á áhrifum og að auki eru spálíkön þau sem lögð eru til grundvallar ekki fullnægjandi.

Í áliti fjármálaráðs frá 14. apríl um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun er bent á að gagnsæi skorti í vinnubrögðum, þ.e. að grunngildin endurspeglast ekki nægilega skýrt í vinnu, verklagi og umfjöllunarefni áætlunarinnar.

Ekki er ljóst hvort því sem sett var fram í fjármálastefnunni sé fylgt eftir í áætluninni eða hvort mikilvæg atriði séu í áætluninni sem ekki eru til staðar í stefnunni. Einnig kom fram gagnrýni, af hálfu fjármálaráðs og Ríkisendurskoðunar á fundum með nefndinni, að framsetning sé ekki nógu góð. Til dæmis eru tölur ekki sundurliðaðar eftir fjárfestingum annars vegar og rekstrarkostnaði hins vegar og undir þetta tók hv. þm. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, til samræmis við meirihlutaálit fjárlaganefndar. Þetta þarf að laga. Þá benti Ríkisendurskoðun á að æskilegt væri að sjá samanteknar kennitölur, þ.e. til að skýra stöðuna og breytingar á útgjöldum. Fulltrúi Framsóknarflokksins í 2. minni hluta tekur undir þessa gagnrýni á framsetningu fjármálaáætlunar.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tíma í þessari ræðu um nefndarálitið til að fara yfir hvert einasta málefnasvið, til þess gefst ekki nægur tími. Ég mun því leggja áherslu á nokkur útvalin svið að þessu sinni en geri ráð fyrir að fara yfir fleiri málefnasvið í umræðu um málið á næstu dögum.

Ég ætla að byrja á því að fara yfir svið 06, hagskýrslugerð o.fl. Ljóst er að huga þarf betur að samspili spágerðar og stefnu. Þjóðhagsspár Hagstofunnar sem lagðar eru til grundvallar fjármálastefnunni eru ekki þeim eiginleika gæddar að greint sé hvernig ný fjármálastefna mun hafa áhrif á efnahagsþróunina. Stefnuhermun og sviðsmyndaspá þarf að framkvæma til að hægt sé að segja til um framvindu fjármálastefnunnar. Engin slík vinna er nú til staðar í stjórnkerfinu og æskilegt er að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari í verkefnið til að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í stefnumótuninni. Þannig fær ráðuneytið aukna pólitíska ábyrgð um lykilákvarðanir og efnahagslega þýðingu þeirra sem er lykilatriði.

Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun er dregið úr aðhaldsstigi þegar á líður, samhliða minnkandi þenslu, en ekki leiðrétt fyrir hagsveiflu. Mun æskilegra væri að miða við hagsveifluleiðréttan frumjöfnuð til að meta aðhaldsstigið eins og bæði fjármálaráð og Seðlabanki Íslands hafa bent á. Það er ámælisvert að stjórn peningamála og ríkisfjármála séu ekki samstiga í að meta aðhaldsstigið.

Fjármálaráð bendir í umsögn sinni frá 14. apríl á að einsleitni gæti hvað varðar líkön og spár sem liggja að baki mati á stöðu efnahagsmála og efnahagshorfum. Allir helstu greiningaraðilar á Íslandi nota líkan Seðlabanka Íslands við spágerð sína. Spár verða einsleitar og umrætt líkan er heldur ekki hannað til að búa til þjóðhagsspár til að styðja við mótun fjármálastefnu. Ég tek undir að huga þurfi að nýju verklagi hvað þetta varðar.

Frú forseti. Að baki mörgum fullyrðingum í fjármálaáætlun skortir greiningar, bæði að mati Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðs. Það er t.d. ekki auðséð hvernig innlend eftirspurn muni drífa áfram hagvöxt í vaxandi mæli eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Í hagspá sem liggur til grundvallar áætluninni er gert ráð fyrir mjúkri lendingu að loknu yfirstandandi þenslustigi. Hagsaga landsins styður ekki þá forsendu og því væri æskilegt að stjórnvöld greindu áhættuna og tækju mið af spám og greiningum annarra aðila, eins og kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. Ég tek undir þessar ábendingar þar sem það er alvarlegt að byggja langtímaáætlanir ríkissjóðs á svo hæpnum forsendum sem standast vart lög um opinber fjármál.

Vindum okkur í umfjöllun um skattamál, málefnasvið 05, og svo ferðaþjónustuna, málefnasvið 14. Í fjármálaáætlun eru kynntar breytingar á virðisaukaskattskerfinu þar sem gistiþjónusta og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi færist úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukaskatts, úr 11% í 24%, 1. júlí 2018. Eftir breytingarnar á virðisaukaskattinum er það staðreynd að ferðaþjónustan á Íslandi innheimtir einna hæstu skatta í samanburði við samkeppnislöndin. Ljóst er að þetta mun hafa áhrif á greinina og sér í lagi þar sem krónan hefur styrkst verulega síðustu 18 mánuði. Í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 28. mars 2017 er bent á mikilvægi þess að rekstrarumhverfi sé samkeppnishæft og að atvinnugreinin sé sjálfbær. Fyrirhuguð hækkun mun draga úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar. Samkvæmt umsögnum hagsmunaaðila var ekki haft formlegt samráð við samtök aðila í ferðaþjónustu varðandi þessar breytingar á virðisaukaskatti. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar frá 28. apríl er farið fram á að fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti verði að fullu dregnar til baka. Vísað er m.a. til þess að gengisþróun síðustu missera hafi skert samkeppnishæfni greinarinnar verulega og fyrirtækin þurfi að taka á sig tap vegna samninga um fast verð í erlendum gjaldmiðlum. Gistinóttum hefur fækkað og nú þegar er mikið um afbókanir, á árunum 2017 og 2018. SAF bendir á að neikvæð áhrif verði mest á landsbyggðinni.

Ég gagnrýni harðlega að stjórnvöld hafi ekki greint hver áhrifin verða á rekstur fyrirtækja m.a. út frá staðsetningu þeirra. Það er ljóst að hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna er misráðin við núverandi aðstæður og illa undirbúin. Hæstv. forsætisráðherra virðist vera farinn að átta sig á því samkvæmt nýjustu fréttum og umræðu í þinginu í gær. Það blasir við að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki samstiga í þessu máli og þar vísa ég einnig í umsögn meiri hluta fjárlaganefndar. Það er því útlit fyrir að þessari ákvörðun verði ekki framfylgt að þessu sinni. En ef svo fer er fjármálaáætlunin, eins og hún liggur fyrir, ófjármögnuð. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Málið er frá A til Ö fúsk og meira fúsk.

Þingflokki Framsóknarflokksins þykir réttara að skoða aðrar leiðir hvað skattheimtu varðar, t.d. komugjald og breytingar á gistináttagjaldi, til að auka tekjur ríkissjóðs og vísa ég þar í umsögn fulltrúa Framsóknarflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd. En meiri hluti fjárlaganefndar virðist vera á svipuðum slóðum í sinni umsögn um málið, þ.e. sammála Framsóknarflokknum að hluta til hvað tekjuöflun varðar. Hins vegar hafnar Framsóknarflokkurinn algerlega hugmyndum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er slæm hugmynd og það er hættuleg hugmynd.

Í umsögn fjármálaráðs kemur fram að óvissa ríki um þjóðhagslegar forsendur og að ekki liggi fullnægjandi greiningar til grundvallar fyrirhuguðum virðisaukaskattsbreytingum. Við gagnrýnum lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts miðað við núverandi þenslu í hagkerfinu og fyrirliggjandi efnahagsspár.

Framsóknarflokkurinn vill að lagður verði á lýðheilsuskattur. Tekjur af skattinum renni til lýðheilsumála og til uppbyggingar á heilbrigðisþjónustu, m.a. til lækkunar á tannlæknakostnaði aldraðra og að lækka þak á greiðsluþátttöku sjúklinga.

Nú ætla ég að fjalla um svið 12 og 13, landbúnað og sjávarútveg. Ýmis markmið eru reifuð í áætluninni en ekki sett fram töluleg markmið nema um fá þeirra. Þess í stað er talað um að verkefni verði fjármögnuð innan ramma. Í ljósi þess að um er að ræða 2% aðhaldskröfu á ári er ljóst að ekki næst fram nauðsynleg raunhækkun gjalda. Ekki liggur t.d. fyrir hvernig styrkja eigi Matvælastofnun. Hið sama gildir um Hafrannsóknastofnun. Samkvæmt fjármálaáætlun eru engin plön um nýtt hafrannsóknaskip. Sjávarútvegurinn er ein af okkar undirstöðuatvinnugreinum. Það gengur auðvitað ekki að halda áfram á þessari vegferð og svelta Hafrannsóknastofnun. Við segjumst byggja kerfið okkar upp á sjálfbærum veiðum sem byggja á vísindalegum rannsóknum en á sama tíma er ekki til fjármagn til að stunda vísindalegar rannsóknir eins og þörf er á og því er oft stuðst við margra ára gamlar tölur þegar kvótinn er ákveðinn. Þetta er algjörlega ómögulegt. Hið sama gildir um Matvælastofnun. Við gerum kröfur um öryggi og eftirlit varðandi matvælaframleiðslu en fjármögnum ekki þau verkefni sem eftirlitsstofnunin okkar á að sinna. Hvað er það? Þessa hluti þarf að skoða betur og gera nauðsynlegar breytingar.

Víkjum þá að sveitarfélögum og byggðamálum, sviði 08. Það er umfangsmikil umfjöllun eins og sést á öllum þeim innsendu umsögnum frá sveitarfélögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Umfang sveitarfélaga sem hlutfall af opinberum rekstri hefur aukist mjög á síðustu tveimur til þremur áratugum, ekki síst vegna flutnings verkefna frá ríkinu. Því er afar mikilvægt að leggja ríkari áherslu á afkomu sveitarfélaga en áður, líkt og lög um opinber fjármál kveða á um. Ríkisendurskoðun tók undir að raunveruleg staða sveitarfélaga þurfi að endurspeglast í fjármálaáætlun og geta þeirra til skuldaniðurgreiðslu. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. apríl segir m.a. að sambandið hafi bent á í umsögn sinni um fjármálastefnuna frá 17. febrúar að það teldi að afkomumarkmið þau sem fjármálastefnan gengur út frá séu óraunsæ og ekki í takt við samþykktar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Sambandið gagnrýnir einnig samráðsleysið við mótun fjárhagslegra viðmiða um afkomu og efnahag sveitarfélaga. Afkomumarkmið fyrir A-hluta sveitarfélaga í fjármálaáætlun eru önnur en þau sem fram koma í fjármálastefnu án þess að gerð sé grein fyrir þeim í frávikum fjármálaáætlunar. Árin 2017 og 2018 er í fjármálaáætlun reiknað með lakari afkomu sveitarfélaga en í fjármálastefnu, en betri afkomu 2020–2022.

Um þetta frávik hefur ekkert samráð verið haft við sambandið, ekki frekar en um aðra þætti fjármálaáætlunarinnar, þar á meðal fimmta kafla sem fjallar um fjármál sveitarfélaga. Ég gagnrýni harðlega samráðsleysið við Samband íslenskra sveitarfélaga og þær hæpnu forsendur sem lagðar eru til grundvallar þeim þáttum sem lúta að afkomu sveitarfélaganna.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram gagnrýni á hversu lítil áhersla er lögð á sveitarstjórnarmál í fjármálaáætluninni. Meðal þess sem fram kemur er að unnið sé að því að efla sveitarstjórnarstigið, breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og auknu samráði við íbúa varðandi stefnumörkun. Hins vegar er engin framtíðarsýn fyrir málaflokkinn lögð fram og ekki gerð grein fyrir þeim leiðum sem fara á til að ná settum markmiðum.

Umfjöllun um byggðamál er ábótavant. Framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætlun. Slík óvissa um fjármögnun verkefna til lengri tíma er óboðleg.

Orkumálin eru svið númer 15. Erfitt er að sjá hvernig ríkisvaldið hyggst koma að því að tryggja orkuöryggi á öllu landinu, m.a. til að uppfylla aðrar áætlanir eins og fram kemur í þingsályktun um orkuskipti, hvað þá verkefni til að flýta þrífösun rafmagns en því á að vera lokið 2034 miðað við núverandi áætlanir og er ákaflega mikilvægt til að hægt sé að stunda nútímalegan atvinnurekstur á öllu landinu þar sem öll stærri tæki byggja á þrífösun. Einnig má nefna áhugavert verkefni um að auka hlut varmadælna eða hitaveitna í því skyni að lækka orkukostnað á köldum svæðum og/eða minnka notkun dísilrafstöðva. Framsóknarflokkurinn gagnrýnir þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þar sem hún ber ekki vott um vilja til að jafna búsetuskilyrði fólks og styðja við uppbyggingu atvinnulífs um land allt.

Varðandi samgöngu- og fjarskiptamál er það að segja að í áætluninni er ekki að finna tímasetningu helstu fjárfestinga en einungis vísað til forgangsröðunar stjórnvalda án rökstuðnings. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis og fjármálaráðs kom fram að engar rannsóknir liggja fyrir á mögulegum mismunandi margfeldisáhrifum framkvæmda eftir landshlutum. Fulltrúar fjármálaráðs töldu að ekki væru fyrir hendi forsendur eða upplýsingar til að unnt væri að gera slíkar athuganir. Við ákvörðun á forgangsröðun framkvæmda ber, að okkar mati, að horfa til þjóðhagslegrar arðsemi sem tekur til mun fleiri þátta en hefðbundnir arðsemisútreikningar. Samtök iðnaðarins segja í umsögn sinni frá 26. apríl að mikilvægt sé að halda aftur af útgjaldaaukningu hins opinbera en á sama tíma sé ekki hægt að horfa fram hjá brýnni fjárfestingarþörf í innviðum. Opinbert fjárfestingarstig er lágt og afleiðingar þess eru að þeir innviðir rýrna sem dregur úr samkeppnishæfni samfélagsins. Mikilvægt er að hefja undirbúning og hönnun framkvæmda svo hægt sé að hefjast handa þegar svigrúm skapast. Á fundi með fulltrúum Samtaka iðnaðarins kom m.a. fram að nú væri lítið að gera í jarðvinnuverktöku vegna lágs framkvæmdastigs við vegagerð og virkjunarframkvæmdir. Skortur er á greiningu hvað stöðu innviða varðar. Samtökin hyggjast bæta úr því í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga og gera skýrslu að norrænni fyrirmynd sem mun heita, með leyfi forseta, „State of Nation“. Við teljum það gagnrýnivert að ríkisstjórnin hafi ekki látið gera slíka skýrslu samhliða vinnu við fjármálaáætlun þar sem um er að ræða áætlun til næstu fimm ára. Uppbygging innviða er nátengd samkeppnishæfni landsins.

Það veldur vonbrigðum að í fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir að mæta fjárþörf hvað varðar samgöngubætur um land allt. Ekki er gerð tilraun til að laga ósamræmið sem er á milli samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar með viðbótarfjármunum í samgöngumál. Svigrúm til framkvæmda á samgöngumannvirkjum væri til staðar ef ríkisstjórnin myndi minnka aðhald í ríkisfjármálum, en það er nú 2% á flestum sviðum.

Umhverfismálin eru meðal allra mikilvægustu málaflokka næstu áratuga. Mikilvægi málaflokksins endurspeglast ekki í fjármálaáætlun, því miður. Framlög til þessa málaflokks hækka í kringum 1 milljarð kr. á milli áranna 2017 og 2018 en svo lækka þau á milli 2018 og 2019. Það er ekki ásættanlegt hjá ríkisstjórn sem segist ætla að setja loftslagsmál í öndvegi. Í áætluninni eru talin upp markmið og aðgerðir og þær tímasettar, en kostnaðar er hvergi getið við einstaka þætti. Hins vegar kemur heildarkostnaður til málefnasviðsins fram í lokin, þ.e. áætlun frá 2018–2022. Þetta er ófullnægjandi framsetning og ljóst er að fjármagn fylgir ekki þeim aðkallandi verkefnum sem við blasa.

Fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting inn í framtíðina. Fjármálaáætlunin ber þess merki að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að hafa þau orð að leiðarljósi. Framhalds- og háskólastigið verður ekki eflt, eins og lofað var fyrir kosningar. Það er verulegt áhyggjuefni og gagnrýnivert og þvert á þau loforð sem stjórnarflokkarnir gáfu, allir sem einn, fyrir kosningar.

Í fjármálaáætlun sem samþykkt var fyrir árin 2017–2021 var gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins myndu hækka um 3,2 milljarða kr. að raunvirði yfir tímabilið eða sem svarar til nálægt 12% raunvaxtar. Á sama tíma var gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarsparnaði í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma úr fjórum árum í þrjú. Áætlunin gerði ráð fyrir að allur sá sparnaður sem félli til við styttinguna héldist innan kerfisins og færi í að efla framhaldsskólastigið enn frekar. Sú er ekki raunin í nýrri fjármálaáætlun. Þar eru framlögin skert frá því sem áður var áætlað þannig að árið 2018 verði þau óbreytt að raungildi en lækki lítillega eftir það, eða um 0,6% árlega sem svarar til 630 millj. kr. uppsafnað á tímabilinu. Sparnaður sem verði við styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú er tekinn af framhaldsskólunum þvert á gefin loforð. Fullt tilefni hefði verið til að nýta svigrúmið til að bæta verk- og starfsnám í samræmi við þau markmið sem sett eru í fjármálaáætluninni. Einnig hefði verið hægt að nýta svigrúmið til að styðja betur við eldri nemendur og tryggja innleiðingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á framhaldsskólastiginu. Við Framsóknarmenn lýsum yfir verulegum vonbrigðum með þau sviknu loforð sem felast í breyttum fjárveitingum ríkisstjórnarinnar til framhaldsskólastigsins frá fyrri fjármálaáætlun.

Og vonbrigðin halda áfram, frú forseti. Áætlað er að framlög til háskólastigsins verði aukin úr um 41,6 milljörðum kr. á árinu 2017 í rúmlega 44 milljarða kr. á áætlunartímabilinu. Þar er stærsta einstaka verkefnið bygging Húss íslenskra fræða, en áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er 3,7 milljarðar kr. á árunum 2017–2021. Þegar hafa verið veittar 600 millj. kr. vegna hönnunar og fyrra útboðs í verkið. Háskóli Íslands mun greiða 30% en áætlað er að ríkissjóður greiði 70%. Því má gera ráð fyrir að raunvöxtur framlaga til að styrkja rekstur háskólastigsins verði um 8%, þ.e. 3,2 milljarðar kr. á tímabilinu. Í umsögn stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 4. maí segir, með leyfi forseta:

„Stúdentaráð telur jafnframt villandi að með framlögum til háskóla séu talin framlög til byggingar Húss íslenskra fræða, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og uppbyggingar nýs fagháskólastigs. Þrátt fyrir aukningu í málaflokkinn í heild er ljóst að framlög til rekstrar háskólanna munu ekki aukast að neinu marki fram til ársins 2019.“

Annar minni hluti ítrekar gagnrýni á framsetningu fjármálaáætlunar sem er í besta falli afar villandi þar sem rekstrar- og fjárfestingarkostnaði er sífellt blandað saman.

Háskólarnir hafa bent á að háskólastigið hafi sætt verulegum og langvarandi niðurskurði frá því eftir hrun. Í aðdraganda kosninga var mikil umræða um aukin framlög til háskólastigsins og lögðu allir stjórnmálaflokkar áherslu á aukin framlög til málaflokksins. Sem dæmi má nefna var í kosningaáherslum Sjálfstæðisflokksins lofað að auka framlög til háskólanna til meðaltals OECD-landa. Við það er ekki staðið í fjármálaáætluninni og er ekki hægt að líta á það öðrum augum en að kjósendur hafi verið beittir blekkingum ef litið er til þess ramma sem háskólastiginu er settur í áætluninni.

Samtök iðnaðarins segjast í umsögn sinni frá 26. apríl hafa áhyggjur af verulegum brotalömum í söfnun og birtingu gagna um menntamál og mannauð. Ekki kemur fram í fjármálaáætlun að til standi að bæta úr því. Sumar þessara rannsókna er Íslandi skylt að framkvæma samkvæmt EES-samningum, en gerir ekki. Við tökum undir þetta sjónarmið Samtaka iðnaðarins og leggjum áherslu á að fjölga eigi verknámsnemum. Samkvæmt þeirri stefnu sem kynnt er í fjármálaáætlun er ekkert sem gefur til kynna að stjórnvöld hyggist beita sér fyrir fjölgun verknámsnema, heldur þvert á móti eins og áður er nefnt.

Stefnumörkun á sviði nýsköpunar er aðkallandi svo íslenskt samfélag verði samkeppnishæft til framtíðar. Í fjármálaáætlun er lítil viðleitni til að bregðast við þörf á markvissum og hagnýtum rannsóknum og nýsköpunarstarfi þar sem útfærslur á stefnumótun varðandi nýsköpun eru mjög óljósar. Þó eru allir sammála um nauðsyn þess að auka enn frekar nýsköpun í atvinnumálum þjóðarinnar. Stækka þarf hlut alþjóðageirans og fjölga betur launuðum störfum sem krefjast menntunar. Samtök iðnaðarins og fleiri gagnrýna þetta stefnuleysi ríkisstjórnarinnar hvað varðar rannsóknir og nýsköpun.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á menntamál í stefnu sinni þar sem menntun og rannsóknir eru vegabréf þjóðarinnar til framtíðar. Fjármálaáætlun ber því hvorki vott um fyrirhyggju né metnað á þessu sviði og það er miður.

Velferðarmálin eru einnig lykilmál Framsóknar og hafa verið það alla tíð en eitt af slagorðum flokksins hefur m.a. verið manngildi ofar auðgildi, og við það stöndum við. Við gagnrýnum því harðlega hvernig fjármálaáætlun tekur á þeim málefnasviðum sem tilheyra velferðarmálum. Þær áherslur sem birtast hér eru ekki í okkar anda. Félagshyggjan er fjarverandi í þessari fjármálaáætlun enda er núverandi ríkisstjórn glerhörð hægri stjórn og því kannski ekki við öðru að búast. En það er mjög sorglegt.

Ef umrædd ríkisfjármálaáætlun verður samþykkt óbreytt telja forsvarsmenn Landspítala að skera þurfi niður kostnað á innlendum sjúkrahúsum um 5 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar miðað við ný verkefni sem tilgreind eru í áætluninni en óbreytta starfsemi að öðru leyti. Ég vísa í umsögn Landspítala frá 25. apríl. Samkvæmt forsvarsmönnum Landspítala þýðir þetta að það viðbótarfjármagn sem lagt er til í áætluninni virðist að verulegu leyti fengið með því að fella niður fjármögnun ýmissa verkefna sem nú þegar eru til staðar og verða áfram til staðar. Auk þessa eru sum þessara nýju verkefna sem ríkisfjármálaáætlunin felur í sér aðeins fjármögnuð að hluta. Má þar m.a. nefna að hvergi er gert ráð fyrir tækjakaupum vegna nýbyggingar við Hringbraut né nauðsynlega endurgerð eldri húsa spítalans. Hvort tveggja er forsenda þess að nýr meðferðarkjarni og rannsóknarhús verði tilbúin árið 2023 eins og lögð er áhersla á í ríkisfjármálaáætlun.

Í umsögn frá forsvarsmönnum Sjúkrahússins á Akureyri kemur fram að takmörkuð raunaukning sé á framlögum til að mæta þörf fyrir aukna þjónustu og nauðsynlega uppbyggingu á þjónustu innan sjúkrahúsanna. Samkvæmt umsögn þeirra er raunaukning til málefnasviðsins um 338 milljónir á tímabilinu. Inni í þeirri upphæð er fólgin lágmarksaukning til rekstrar og stofnkostnaðar og því vandséð hvernig komið verður til móts við aukningu í þjónustu og þróun sjúkrahússtarfseminnar. Við tökum undir áhyggjur forsvarsmanna Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri forsvarsmanna heilbrigðisstofnana um land allt um vanfjármögnun til málefnasviðsins. Við gagnrýnum harðlega og harkalega það mikla ógagnsæi sem þessi ríkisfjármálaáætlun felur í sér og einnig að stofn- og rekstrarkostnaði sé blandað saman. Það gefur afar skakka mynd af stöðu mála.

Undir þetta málefnasvið, númer 24, falla heilsugæsla, sérfræðiþjónusta og hjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun auk sjúkraflutninga og mig langar að fjalla aðeins um það. Samkvæmt nýjum lögum um sjúkratryggingar, þjónustustýringu, er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í efnislegri vinnslu málsins innan velferðarnefndar síðasta sumar komu upp áhyggjur um hvort mönnun heilsugæslunnar væri undir þetta veigamikla hlutverk búin. Við vinnslu málsins var ákveðið að setja aukafjármagn, 300–400 milljónir, inn í heilsugæsluna til að styrkja hana í þessu hlutverki og það var gert. Hins vegar þarf að gera enn betur í fjármögnun heilsugæslunnar ef þetta nýja hlutverk hennar á að ganga upp. Þingflokkur Framsóknar leggur mikla áherslu á það og að horft sé til heilsugæslunnar á landsvísu og hvernig eigi að efla hana bæði hvað varðar menntun heilbrigðisstarfsfólks og mönnun. Við gagnrýnum að stofnkostnaði og rekstrarkostnaði á málefnasviðinu sé blandað saman. Þetta er alltaf sama sagan út í gegn. Má þar m.a. nefna að byggingu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu er blandað saman við rekstrarkostnað heilbrigðisstofnana.

Meðferð ríkisstjórnarinnar á greiðsluþátttökukerfinu er skelfileg en við þurfum að horfa til framtíðar og við Framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að á árinu 2018 verði næstu skref tekin í átt að betra greiðsluþátttökukerfi. Við viljum að gerð verði tímasett og raunhæf áætlun á gildistíma áætlunarinnar og hvernig tannlæknakostnaður, sálfræðikostnaður og aukinn stuðningur vegna ferðakostnaðar sjúklinga verði felldur undir greiðsluþátttökukerfið. Auk þessa vill þingflokkur Framsóknar að tímasett verði hvenær greiðsluþátttökukerfi lyfja- og heilbrigðiskostnaðar renni saman í eitt sanngjarnt kerfi. Mikilvægt er að allar þessar aðgerðir séu kostnaðargreindar og að fullu fjármagnaðar.

Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 25, þ.e. hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, hækki um 4,9 milljarða og að reist verði fimm ný hjúkrunarheimili á gildistíma áætlunarinnar. Á bls. 68 í áætluninni kemur fram að þetta verði samtals 319 rými, þar af 261 nýtt hjúkrunarrými, en á bls. 306 í sömu áætlun kemur fram að fjölga eigi hjúkrunarrýmum um 292. Hér er algert ósamræmi innan sömu fjármálaáætlunar og við teljum óásættanlegt að misvísandi skilaboð séu um hvert skuli stefna. Við teljum einnig að þessi áætlun, sama hvor talan er rétt, sé fjarri því að mæta eftirspurn á næstu árum, m.a. vegna fjölgunar aldraðra og þess fráflæðisvanda sem er til staðar. Við Framsóknarmenn viljum að horft sé til umönnunarþarfar vistmanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum og að heimilin fái greiðslur í samræmi við þá þjónustu sem þau veita.

Framsóknarflokkurinn telur skynsamlegt að Ísland taki þátt í auknu norrænu samstarfi um kaup á lyfjum og fái þannig aðgang að stærri mörkuðum og nýrri og betri lyfjum. Það er óásættanlegt að Ísland dragist aftur úr hvað varðar innleiðingu nýrra lyfja sem þegar hafa verið samþykkt annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta málefnasvið er vanfjármagnað, sérstaklega þegar litið er til hraðrar framþróunar og vaxandi fjölda aldraðra. Það er stórkostlegur galli þar sem fjármálaáætlun er áætlun ríkisfjármála til næstu fimm ára. Grundvallarforsendur um stóra málaflokka verða því að vera sem réttastar, en svo er ekki. Maður spyr sig því enn og aftur: Er eitthvað að marka þessa fjármálaáætlun? Svarið er nei — því miður.

Ég ætla að hlaupa hérna yfir, það er af svo mörgu að taka. Ég verð að fara í mjög margar ræður til viðbótar, sýnist mér, í dag.

Innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi, 2012–2013, áfangaskýrslu um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Nefndin var skipuð á grundvelli þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012.

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er ekki að finna skilgreiningu á mannafla- eða fjárþörf lögreglu. Í niðurstöðu áðurnefndrar áfangaskýrslu til Alþingis er sérstaklega litið til mannaflaþarfar og var niðurstaðan sú að lögreglumenn þurfi að lágmarki að vera 860, auk þess sem áætlaður kostnaður við þá fjölgun og nauðsynlega búnaðareflingu var tiltekinn. Þarna eigum við mjög langt í land miðað við framlagða áætlun.

Annar stór galli varðar fjölgun hælisleitenda á Íslandi. Það er alveg fyrirséð að þar verði líka risastórt gat miðað við það sem við er að búast í raunveruleikanum.

Að þessu sögðu er það niðurstaða mín að allt gagnsæi vantar í ríkisfjármálaáætlunina þar sem nær ómögulegt er að átta sig á hvaða fjármagn er áætlað til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram. Einnig er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman og gefur það mjög skakka mynd. 2. minni hluti gagnrýnir þá miklu aðhaldskröfu sem sett er fram í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 en nú er aðhaldskrafan 1,5% afgangur af fjárlögum. Við leggjum til að aðhaldskrafan verði lækkuð um 0,5% prósentustig, þ.e. niður í 1% afgang af fjárlögum. Sú breyting ætti að skila ríkissjóði um 10–12 milljörðum kr. aukalega á ári. Við Framsóknarmenn erum sammála því að mikilvægt sé að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og ná þar með niður vaxtakostnaði en á sama tíma þarf víða að auka við uppbyggingu innviða, svo sem í menntakerfinu, samgöngum og velferðarkerfinu. Ef innviðir fá að grotna niður áfram mun það skaða samkeppnisstöðu Íslands til lengri tíma. Breytingar á skattkerfinu eru vangreindar, illa undirbúnar og án samráðs við mikilvæga hagsmunaaðila. Augljóslega er ekki sátt innan ríkisstjórnarinnar heldur eða svo virðist vera. Þetta er einkennilegt mál frá A til Ö. Því eru forsendur fyrir því sem heita á langtímaáætlun ríkisstjórnar afar veikar. Ósamræmis gætir á milli fjármálastefnu annars vegar og fjármálaáætlunar hins vegar og því óvíst hvort verið sé að fylgja lögum um opinber fjármál sem er grafalvarlegur hlutur.

Fjármálaáætlunin er því meingölluð og ótrúverðug. Að þessu sögðu leggur fulltrúi Framsóknarflokksins í 2. minni hluta til að fjármálaáætluninni verði hafnað.