146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er morgunljóst að loforðin hafa verið svikin. Það var mjög skýrt á síðasta kjörtímabili hvað varðar styttingu náms, og farið var yfir það í mörgum góðum ræðum, að sá sparnaður ætti að haldast innan sviðsins. En svo er ekki. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni sjáum við Framsóknarmenn fyrir okkur að það fjármagn sem hefði átt að vera þarna inni ætti fyrst og fremst að fara til styrkingar á starfsnámi. Það er mjög aðkallandi — það kom fram í nokkrum umsögnum og í umræðum hjá nefndinni og ekki bara við umræðu um fjármálaáætlun heldur líka um fjármálastefnuna og fjárlög — að við þurfum að efla verknám, starfsnám, hér á landi til að vera samkeppnishæf. Þetta er það sem allir flokkar virðast vera að tala um. Í þessari fjármálaáætlun er ekkert um það. Maður er ekki bara hugsi, það væri of vægt til orða tekið, heldur eru þetta gríðarleg vonbrigði. Þetta er stórhættuleg stefna sem við höfum í höndunum.