146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom hérna inn á það aðeins í síðasta andsvari að landlæknir segði að öryggi sjúklinga væri ógnað. Þá finnst mér rosalega áhugavert að skoða fjármálaáætlunina og sjá 8,8% hækkun til sjúkrahúsþjónustu. Ég get ekki séð að það sé svar við áhyggjum landlæknis. Ég tel að við ættum að gera betur sérstaklega varðandi þessar ábendingar. Við ættum að hlaupa upp til handa og fóta og bjarga því sem bjargað verður ef öryggi sjúklinga er ógnað.

En svo vildi ég líka koma inn á annað. Við höfum talað mikið um betra ferli og hv. þingmaður nefndi það einmitt, nýtt og betra ferli fyrir fjármálaáætlunina. Við erum að læra á ný lög um opinber fjármál. Hvernig gæti fjármálaáætlun t.d. verið í betri samleið með samgönguáætlun?