146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:52]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég bjóst hálfvegis við því að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, myndi slá svolítið annan tón en aðrir stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað í ljósi reynslunnar úr ráðuneytinu og þar fram eftir götunum. En svo var nú ekki. Það er má eiginlega segja að línan sé þessi: Ekkert nægir til neinna þarfa. Allir málaflokkar, öll svið þurfa miklu, miklu meiri peninga en gert er ráð fyrir. Og talað er eins og eitthvert sérstakt aðhald eða sparnaður felist í ríkisfjármálaáætluninni.

Við erum að auka útgjöld að raunvirði um 83 milljarða á líftíma þessarar ríkisfjármálaáætlunar fyrir utan stofnkostnað. Ef maður leggur það saman við raunútgjaldaaukninguna sem varð milli áranna 2016 og 2017 er það örugglega fordæmafá aukning á ríkisútgjöldum á einungis örfárra ára tímabili. Þar af er verið að auka raunútgjöldin án stofnkostnaðar um 34 milljarða til heilbrigðismála. Það þýðir nefnilega ekki að einblína á Landspítalann. Einnig er tekið á málum Landspítalans fyrir utan hann sjálfan. Fulltrúar Landspítalans hafa lýst því að einn mesti vandi þeirra sé fráflæðisvandinn, þeir losni ekki við sjúklingana út af spítala. Það er ekki vandamál sem leyst er innan spítalans heldur með hjúkrunarheimilum fyrir utan hann.