146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit hv. þingmanns á því að til standi á þessum fimm árum að breyta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, því að það kemur ekki fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hef alla vega ekki séð það. Ég hef heldur ekki séð áform um að færa gistináttagjaldið til sveitarfélaganna að hluta eða öllu. Það kemur fram í meirihlutaálitinu en þveröfugt í stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að skoða beri komugjöld í stað þess að hækka virðisaukaskattinn. Hv. þingmaður nefndi að mikilvægt væri að hvetja ríkisstjórnina áfram í loftslagsmálum og að aðgerðaáætlun væri fjármögnuð, sem hún er ekki. Hv. þingmaður nefndi líka að fara þyrfti í greiningarvinnu á þensluáhrifum, sem sá sem hér stendur getur ekki verið meira sammála. Í umsögnum okkar Framsóknarmanna segir að nú sé tækifærið til að fara í atvinnuuppbyggingu, vegasamgöngur, fjarskipti og allt mögulegt (Forseti hringir.) á köldum svæðum.

Mín spurning er: Hvernig geta meirihlutaþingmenn samþykkt stefnu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar þegar þeir eru meira og minna sammála áherslum minni hlutans og gagnrýna fjármálaáætlunina í öllum sínum umsögnum?