146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir síðustu fjármálaáætlun sem samþykkt var í ágúst hjá síðustu ríkisstjórn. Ég hef aðeins verið að gera þá áætlun að umtalsefni sérstaklega í málefnum framhaldsskólans. Ég var ekki sammála þeirri ákvörðun að stytta framhaldsskólann flatt í þrjú ár. Mér fannst eðlilegt að við fylgdum anda framhaldsskólalaga frá árinu 2008 um frelsi í framhaldsskólakerfinu, að skólarnir hefðu ákveðið svigrúm til að móta sér sína sérstöðu. Mér fannst þessi ákvörðun sveigja skólakerfið í átt til aukinnar miðstýringar. En gott og vel. Þáverandi hæstv. ráðherra sagði: Af þessu verður hagræðing og hún á að skila sér. Og hún skilaði sér í síðustu fjármálaáætlun. Svo rækilega að það munar um þann 1 milljarð og 447 milljónir sem við horfum núna upp á að framlög til framhaldsskólanna lækki um á árinu 2021 en frá síðustu áætlun.

Hv. þingmaður spyr hvað sé alvarlegt, ég þarf kannski að koma að því í seinna andsvari. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því hversu metnaðarlítil þessi áætlun er þegar kemur að menntamálum þar sem tækifærin eru fyrir framtíðina. (Forseti hringir.) Hér tala hæstv. ráðherrar um að það sé bara heilbrigt að fækka aðeins þeim sem eru í námi. Bíddu, hvers konar sóknarhugur er þetta eiginlega, herra forseti?