146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sé mikilvægt að við skoðum þetta allt í samhengi. Við sem talað höfum fyrir aukinni tekjuöflun heilt yfir gagnvart ríkissjóði fremur en að ganga gegn því sem peningastefnunefnd hefur sagt — þeir aðilar sem hér hafa fjallað um hagstjórnina hafa beinlínis sagt að það sé ekki skynsamleg leið að lækka skatta á þessum uppsveiflutíma. Hæstv. fjármálaráðherra sagði það sjálfur við framsögu ríkisfjármálastefnunnar að ríkissjóður væri í járnum. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að hér fara menn hamförum í því að afsala sér tekjum.

Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við skoðum þetta allt í samhengi. Hluti af því sem ég held að við eigum að styrkja er Fæðingarorlofssjóður, og það höfum við gert m.a. í gegnum tryggingagjaldið.

Mig langaði svona rétt í restina að spyrja hv. þingmann, sem er nýkominn úr sveitarstjórn, sérstaklega um NPA og þjónustusamningana. Frumvarpið er vissulega í nefndinni núna, en þetta er eitt af þeim gráu svæðum hjá sveitarfélögunum. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að í raun sé hægt að afgreiða málið út miðað við þá stöðu sem uppi er gagnvart viðhorfum sveitarfélaganna og ríkisins?