146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég verð að segja, og hef farið yfir það nokkuð oft, að með fjármálaáætluninni erum við að setja útgjaldaramma á hina einstöku flokka. Við gætum sagt að ef við værum að setja útgjaldaramma á ríkið í heild þá værum við að ákveða að heildarfjárlög væru 800 milljarðar en ekki 750 eða einhver önnur tala. Það er sú ákvörðun sem við erum að taka núna þegar við ræðum fjármálaáætlun. Þetta er afar mikilvægt ferli, þetta er ferli sem hefur verið við lýði víða annars staðar. Við erum að læra svolítið á það. En þarna setjum við rammana utan um málefnin, hversu mikið eigi að fara í hvert málefni.

Ég var spurður að því í hv. fjárlaganefnd að hve miklu leyti ramminn væri sveigjanlegur. Ég lít svo á að við eigum að taka þennan ramma mjög alvarlega, en við verðum auðvitað ef aðstæður breytast að geta brugðist við. Ég get nefnt dæmi sem við höfum séð í ár og í fyrra þar sem allt í einu stórfjölgaði fjölda hælisleitenda og þar urðum við að bregðast við þótt ekki væru samþykkt útgjöld í fjárlögum. Það eru reyndar allmörg mál sem þingmenn kannast við af því tagi sem alltaf hljóta að koma upp. Almennt talað erum við að samþykkja ramma til fimm ára en við hins vegar breytum honum á hverju ári í meðförum Alþingis. Ég virði að sjálfsögðu vald Alþingis í því.