146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

styrking krónunnar og aðgerðir Seðlabanka.

[10:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er ljóst bæði af þessu svari og svörum við fyrri fyrirspurnum að ráðherra þorir ekki að svara mjög skýrt. Hin róttæka lausn sem hann ræddi í fyrra andsvari er augljóslega myntráð. Um það er engin samstaða í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnarsamstarfið er í uppnámi.

Mig langar að bæta við einni spurningu. Menn hafa rætt það, einkum í flokki ráðherra, að rétt sé að tengja gengi íslensku krónunnar við myntkörfu eða erlendan gjaldmiðil, sem virðist vera tillaga hæstv. ráðherra. Telur hæstv. ráðherra ekki að með því að láta krónuna styrkjast von úr viti og grafa þannig undan útflutningsatvinnugreinunum muni réttar aðstæður skapast til að binda gengi krónunnar við erlenda mynt eða myntkörfu? Mun athafnaleysi og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og hugsanlega Seðlabankans (Forseti hringir.) ekki óhjákvæmilega leiða til þeirrar niðurstöðu? Getur ráðherra svarað því skýrt hvaða tillögur eru á leiðinni?