146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er góð spurning sem hv. þingmaður leggur fram. Manni er spurn hvert svarið gæti verið. Það er ýmislegt sem vantar upp á í dómstólunum. ´Í málefnasviðakaflanum þar má víða finna þá einföldu setningu að ekki rúmist svigrúm innan fjármálaáætlunar til þess að inna þau verk af hendi sem þurfi að vinna til að stuðla að betri dómstólum hér á Íslandi.

Mig langar að fá að ræða aðeins um menningarmál og listir sem er að finna í þessari áætlun. Í umsögn hv. þingmanns kemur fram, og er alveg rétt, að menntamálaráðuneytið leggi í raun ekki fram neinar tölur. Mig langar að bera undir hv. þingmann þau viðmið sem menntamálaráðuneytið hefur þó, sem er að fjölga þátttakendum í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK um ákveðinn fjölda á milli ára og reyndar líka í skátunum, þótt ekki sé að sjá að nein önnur félög hljóti slíka náð fyrir augum menntamálaráðuneytisins. Þykir hv. þingmanni það samræmast jafnræðisreglunni og góðum stjórnsýsluháttum að gera það að markmiði sínu (Forseti hringir.) að fjölga þátttakendum í einni tegund af æskulýðsstarfi frekar en öllum öðrum í þessari fjármálaáætlun? Eru það einhvers konar viðmið?