146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, með síðari breytingum, úttektarheimildir. Þetta er nefndarálit frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin afgreiddi málið á fundi sínum 18. maí sl. Í kjölfarið barst nefndinni erindi frá Seðlabanka Íslands þar sem fram kom að af hálfu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu verið gerðar athugasemdir við að 1. gr. frumvarpsins tæki ekki til lokagreiðslna jafngreiðslubréfa. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa Seðlabanka Íslands vegna málsins.

Með tilliti til athugasemda Seðlabanka Íslands leggur nefndin til að úttektarheimild samkvæmt 1. gr. frumvarpsins nái til samningsbundinna afborgana á lokagjalddaga lánaskuldbindinga, þó ekki lánaskuldbindinga sem aðeins fela í sér eingreiðslu á gjalddaga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, og breytingin er á þingskjalinu, sem hljóðar svo:

Í stað orðanna „fyrir lokagjalddaga“ í 1. gr. komi: annarra en eingreiðsluskuldbindinga.

Þetta var samþykkt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 23. maí 2017. Undir nefndarálitið rita Óli Björn Kárason formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.