146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Í ríkisfjármálaáætluninni kemur fram að núverandi aðhaldskrafa sé 1,5%, sem er talsverð breyting frá fyrri ríkisfjármálaáætlun þar sem aðhaldskrafan var 1%. Samkvæmt greiningum gæti þetta munað um 10–12 milljörðum. Tekur hv. þingmaður undir það að þessi mikla aukning á aðhaldskröfu gæti komið niður á innviðauppbyggingu, eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, samgöngukerfinu? Tekur hún jafnframt undir með mér að þessi ríkisfjármálaáætlun sé byggð á mjög veikum grunni? Gert er ráð fyrir mjög löngu hagvaxtarskeiði sem óvissa er um. Mig langar einnig að spyrja: Sér hv. þingmaður hvað það er gríðarlegt ógagnsæi í þessari áætlun og mjög erfitt að sjá hvernig uppfylla eigi þau markmið sem sett eru (Forseti hringir.) fram í þessari ríkisfjármálaáætlun þegar hún er sett fram á svo ófullnægjandi hátt eins og við sjáum hér?