146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilfinningin sem ég fékk í kosningabaráttunni var að það þyrfti að gera eitthvað alls staðar. Það væri nauðsynlegt. Ég sé ekki annað, þótt upplýsingarnar liggi ekki nægilega vel fyrir, en að það þurfi að fara í aukna tekjuöflun, bara af því að það vantar alls staðar uppbyggingu.

Það er rétt að þetta var eitt af því sem ég benti á í umfjölluninni um fjármálastefnuna. Jú, við spörum einhvern vaxtakostnað af því að greiða niður skuldir en kostnaðurinn sem kemur á móti við að nota sama peninginn t.d. ekki í innviðauppbyggingu eða viðhald getur endað með því að kostnaðurinn verði meiri seinna í innviðauppbyggingunni. Að þessu öllu gefnu, miðað við núverandi aðstæður og miðað við fjármálastefnu eins og hún liggur fyrir, miðað við innviðauppbygginguna sem þarf og framkvæmdaþörfina sem okkur hefur verið gerð grein fyrir, þó ekki nægilega nákvæmlega til að við getum í raun forgangsraðað, þá velti ég fyrir mér hverjar niðurstöður kosninga yrðu ef við gengjum til kosninga með þessa fjármálaáætlun.