146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:48]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson séum einmitt sammála um að sé viðhaldið látið danka og drabbast niður sitjum við bara uppi með stærri reikning. Þetta höfum við séð bæði er varðar heilbrigðiskerfið sérstaklega og svo líka vegakerfið og samgöngukerfið. Það er engar raunhæfar áætlanir að finna í þessari fjármálaáætlun um innviðauppbyggingu, viðhald eða fjármögnun framkvæmda á því sviði sem gætu að einhverju leyti verið aðgerðir til að mæta þessari áralöngu kröfu um nauðsynlegt viðhald og nauðsynlega innspýtingu inn í þessar grunnstoðir samfélagsins.

Það er áhugavert líka að nefna að það var bent á þetta t.d. í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Þar er vakin athygli á því að það skortir stefnumörkun og framtíðarsýn í fjármálaáætluninni og bent réttilega á af hálfu samtakanna að áætlun um fjármögnun uppbyggingar innviða skortir. (Forseti hringir.) Og að stjórnvöld leyni afstöðu sinni til einkareksturs á sviðum sem hingað til hefur verið sinnt af því opinbera. Það kemur líka viðhaldinu við.