146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig, alla vega að mínu mati, að þessi 2% aðhaldskrafa mun fyrst og fremst gera það að verkum að ráðherrar og ráðuneyti munu með miklum erfiðleikum ná að uppfylla þau markmið sem þau hafa sett sér í fjármálaáætluninni og við höfum ekki fengið neinar tölulegar upplýsingar um hvernig á að framkvæma.

Það er rétt að metnaðarlítil áætlun er hvað varðar menntamál. Maður tekur eftir þeirri breytingu sem hefur orðið á fjármálaáætluninni frá því í fyrra varðandi framhaldsskólann, veit ekki hvort það skýrist þá af því að við Framsóknarmenn höfum lagt meiri áherslu á menntamál þótt þau hafi ekki verið í okkar ranni, að við sjáum auðvitað núna að taka á peninga út úr framhaldsskólanum vegna styttingar námsins í eitthvað annað. Við sjáum líka að nú er forsætisráðherra ekki lengur í forsvari fyrir Vísinda- og tækniráð. Ég skal ekki segja að það hafi mikla þýðingu, en það er ímynd þess hvort menn leggi mikla áherslu á eitthvert atriði eður ei. Mér sýnist að þessi ríkisstjórn ætli að fara seinni kostinn, eiður ei leiðina.