146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, hvar meiri hluti hv. fjárlaganefndar? Hann er alla vega ekki hér. Hann er alla vega ekki að taka þátt í umræðum. Hann fór ekki í andsvör við mig í umræðum í gær og fer ekki í andsvör við hv. þingmann, formann Framsóknarflokksins. Þetta er nú umræðan sem við eigum hér um stefnumótun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Það er kannski ekki nema von að meiri hlutinn taki ekki þátt, vegna þess að þau keppast við að tala um það út á við að hér sé nú bara um áætlun að ræða og það eigi eftir að taka allar ákvarðanir í fjárlögum í haust. Þá veltir maður fyrir sér: Til hvers var þá unnið? Til hvers var þá unnið með að setja hér fram fjármálaáætlun ef hún er í raun og veru ómark?

Þess vegna spyr ég í mínu fyrra andsvari: Höfum við þá ekki að misskilið eitthvað um hvernig innleiða á þessi lög? Hér er búið að leggja mikla vinnu í að ræða þessi mál í fagnefndum. Það eru sérálit í umsögnum úr öllum nefndum, af því að nefndarmenn hafa ekki náð saman í nefndunum um þær áherslur sem leggja á. (Forseti hringir.) Hér ber okkur skylda til að sýna stóru línurnar. Það er mjög erfitt þegar meiri hlutinn heldur sig fjarri umræðunni.