146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt hér, það er með ólíkindum að enginn stjórnarþingmaður skuli vera í salnum fyrir utan hæstv. ráðherra. Ég hef áhyggjur af því að það boði ekki neitt gott er varðar ríkisfjármálaáætlun þegar allt pólitískt eignarhald á stefnunni vantar.

Það sem mun gerast er að það verða breytingar þannig að sá fyrirsjáanleiki sem fimm ára ríkisfjármálaáætlunin er um verður enginn. Það að stjórnarþingmenn séu svona lítið virkir í umræðunum mun leiða til þess. Ég, eins og aðrir, kalla eftir virkari þátttöku er þetta varðar svo að þetta plagg geti þjónað tilgangi sínum.