146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að koma inn á ferðaþjónustuna og komugjöldin. Nú lögðum við Vinstri græn fram breytingartillögu við fjárlagagerð á síðasta ári varðandi komugjöld, hún var felld. Nú veit ég að Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram slíka tillögu og er það hið besta mál. Hvað heldur hv. þingmaður með fjármálaáætlun og forsendur hennar miðað við að þetta er allt á floti og þær tekjur sem reiknað var með út af virðisaukaskattsbreytingum á ferðaþjónustuna eru ekki tryggar inni? Er það ekki í uppnámi sem snýr að þeim tekjum sem reiknað er með að fylgi virðisaukaskattsbreytingunum ef það er ríkur vilji hjá stjórnarmeirihlutanum að gera breytingar þar á og skoða aðrar leiðir eins og t.d. komugjöld?

Ég vil gjarnan heyra frá hv. þingmanni um það hvort það hafi verið uppi hræðsluáróður gagnvart komugjaldi, að það væri landsbyggðarskattur, og hvort ekki sé hægt að skoða leiðir eins og skosku leiðina eins og hún hefur verið kölluð varðandi komugjöld og farþegagjöld á innanlandsflugið. Slíkar leiðir hafa verið samþykktar af ESA. Gætum við ekki farið slíkar leiðir í innanlandsfluginu hjá okkur? Telur hv. þingmaður ekki vænlegra að skoða komugjöld og að hugmyndir um virðisaukaskattsbreytingar séu mikill landsbyggðarskattur, sérstaklega á litlu sprotafyrirtækin vítt og breitt um landið sem eru að hasla sér völl í ferðaþjónustunni um þessar mundir allt árið um kring?