146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:12]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í komugjöldin og hvort ríkisfjármálaáætlun sé ekki hreinlega í uppnámi. Ég tek undir það. Ríkisfjármálaáætlunin er í uppnámi vegna þess, eins og við sjáum sem sitjum hér í þingsal og ræðum þessi mál í þingsal, að fjármála- og efnahagsráðherra situr hér aleinn. Ég vitnaði í ljóð hér rétt áðan sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra setti sjálfur á sína facebook-síðu, það vantaði kannski pínulítið þegar ég var að flytja það, mér fannst það svo skemmtilegt að það fór meira púður í að flytja ljóðið. Þetta er ljóð sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra setur á sína síðu vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hann upplifi sig algjörlega aleinan með ríkisfjármálaáætlun. Það er alveg ljóst að meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að breytingunum á virðisaukaskattinum verði frestað. Það hlýtur að þýða að ekki sé pólitísk eining um málið. Löggjafinn og framkvæmdarvaldið er komið í hár saman hvað þetta varðar og það kann ekki góðri lukku að stýra að mínu mati.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við eigum að skoða komugjöldin og skosku leiðina. Þetta er bara allt miklu einfaldara. Það væri mun meiri sátt um þessa leið og í henni felast mun meiri tækifæri í því að stýra komu farþega til landsins af því við getum bæði hækkað og lækkað komugjaldið og við getum breytt því eftir árstíðum. Þetta er leið sem mörg ríki hafa farið. Ég tel bæði eðlilegt að skoða þetta betur og þetta þarf heldur ekki að taka jafn langan tíma. Og eins og ég segi, við þurfum að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra betur út í það hvernig hann fær þessar tölur sínar, 6–8 þús. kr.