146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég tek undir orð hennar um mikilvægi þess að átak verði gert í innviðauppbyggingu í hinum veikari byggðum landsins því að þar er ekki sú sama þensla og við sjáum í tölum hér, m.a. fyrir suðvesturhorn landsins. Mig langar einnig að taka undir orð hennar um mikilvægi þess að ferðaþjónustuaðilar á landsbyggðinni, fyrir utan Suðurlandið og höfuðborgarsvæðið, fái svigrúm til að byggja upp þjónustu sína og atvinnu. Ég spyr hvort hún sé ekki sammála mér í því að það felist ákveðin byggðastefna í að gefa þetta svigrúm og ýta þannig undir og styðja við þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað í kringum greinina í hinum ýmsu dreifðu byggðum landsins. Mig langar að spyrja hvað henni finnist um hugmyndir okkar Framsóknarmanna um komugjöldin og þetta hlutfallslega gistináttagjald.