146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:48]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu. Ég tek undir mjög margt af því sem hann var að segja, sérstaklega þegar kemur að málefnum öryrkja. Ég held að við höfum þar verk að vinna og við vitum upp á okkur skömmina.

Ég ætla hins vegar að biðja hann að skýra aðeins út fyrir mér breytingartillögu sem fulltrúi Samfylkingar hefur lagt fram og ég geri ráð fyrir að allur þingflokkur Samfylkingarinnar í heild standi þar að baki. Þetta eru nýir skattar eða skattahækkanir upp á samtals 236 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar. Ég ætla ekki að ræða það sérstaklega. Það er þó pínulítið sundurgreint.

Ég tek eftir því að það eru u.þ.b. 54 milljarðar í eitthvað sem heitir skattar á vöru og þjónustu, breyting, það á að taka gildi frá og með árinu 2019. (Forseti hringir.) Hvaða skattur er þetta? Á hvað er verið að leggja þennan 13,5 milljarða skatt á hverju einasta ári? Einnig eru eignatekjur upp á 98 milljarða. Hvaða eignatekjuauka horfa menn til? (Forseti hringir.) Þið hljótið að vera með það sundurliðað að minnsta kosti.