146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:49]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að ég hef kafað mjög í málefni og fjárveitingar til Landspítalans. Þegar mesti niðurskurðurinn var í hruninu minnkuðu útgjöld um 2–3 milljarða tvö ár í röð. Ég vil aðeins benda á McKinsey-skýrsluna. Hún er úttekt sem allir vitna í og er mjög mikilvæg. Í skýrslunni er aftur og aftur talað um aukna skilvirkni í rekstri.

Ég ætla að vera alveg hreinskilin: Það er ég sem hef verið að hlaupa hér um þinghúsið og leggja fram hugmyndir um stjórn við spítalann, ekki á pólitískum forsendum heldur faglegum, að við setjum fagaðila í reksturinn svo forstjóri spítalans þurfi ekki að vera í baráttu, í pólitískri baráttu, á fundum út af peningum. Hann á ekki að þurfa að koma hingað niður í þinghús fimm mínútum fyrir afgreiðslu fjárlaga til að betla pening.