146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef auðvitað áhyggjur af þessum vinnubrögðum. Fjármálaáætlunin er þingsályktunartillaga þannig að Alþingi samþykkir hana og felur síðan ríkisstjórninni að gera það sem í henni stendur. Ég er ánægð með þá vinnu sem hefur farið fram í fagnefndunum og þessi álit og umsagnir sem fagnefndirnar hafa skilað eru upp til hópa mjög góð plögg. Þar eru góðar umsagnir sem við getum nýtt okkur þegar við förum að fjalla um fjárlögin. En ef hins vegar það á ekki að skipta neinu máli hvaða tölur standa í fjármálaáætluninni þá hefðum við ekki átt að setja þetta upp sem þingsályktunartillögu í lögum um opinber fjármál. Þá hefðum við frekar átt að segja: Fjárlaganefnd flytur skýrslu og segir hvernig henni finnist að hlutirnir eigi að vera og hver fagnefnd getur þá flutt sína skýrslu og þar með sett einhver skilaboð inn til ríkisstjórnarinnar, svo fái hún bara að ráða hvernig hlutirnir eru.

Þannig er þetta ekki í lögum um opinber fjármál. Þar er gert ráð fyrir þingsályktunartillögu um fjármálastefnuna og strangir rammar eru í kringum það hvenær má breyta henni og hvenær ekki. Og gert er ráð fyrir að ramminn um 34 málasvið fyrir næstu fimm árin í fjármálaáætluninni sé settur niður með samþykkt Alþingis. Þá um leið og Alþingi er búið að samþykkja tölurnar segjum við ekki við fjármálaráðherrann og framkvæmdarvaldið allt: Við samþykkjum þetta, en svo megið þið svolítið ráða hvernig þið hafið þetta. Það er alls ekki meiningin með lögum um opinber fjármál og sýnir ekki festu, (Forseti hringir.) gagnsæi eða stöðugleika sem gildir og gengur í gegnum lögin.