146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnemanda í háskóla er tæplega 1.300 þús. kr. á ári. Í nágrannalöndunum er framlagið 2,2 milljónir. Það er mikill munur þarna á milli. Munurinn felst náttúrlega í kennslunni, en líka aðbúnaði og ekki síst í rannsóknastarfi. Háskólastarf er ekki bara kennsla, heldur er það líka rannsóknastarf. Það er vitað og viðurkennt að þjóð sem er með sterka háskóla styrkir samkeppnisstöðu sína. Þegar við getum ekki haldið úti fjölbreyttu námsframboði, getum ekki haldið uppi vísindastarfi í sumum greinum af því að við hreinlega kennum þær ekki eða sinnum ekki rannsóknastarfi, þá drögumst við aftur úr í þessum efnum. Það er augljóst mál. Ég hef áhyggjur af þessu því einmitt núna þurfum við á því að halda að styrkja menntunina í landinu, til að mæta því sem er að koma yfir okkur með hinni nýju tæknibyltingu. Þá eigum við að taka höndum saman og styrkja menntakerfið okkar.

Það sem síðasta ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi og þessi sem nú er við völd virðist vilja gera er að fækka nemendum þannig að hægt sé að segja að framlagið sé hærra. En þá erum við um leið að lækka menntunarstig í landinu og skemma stöðu okkar og samkeppnisstöðu. (Forseti hringir.) Ég gæti sagt miklu meira um þetta og er ekki enn byrjuð að tala um virðisaukaskattskerfið, það skal ég gera á eftir á einni mínútu.