146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:52]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Að allt öðru. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í vinnumarkaðinn því það kemur fram í fjármálaáætlun að helstu áskoranir vinnumarkaðarins séu aukin örorka á Íslandi vegna atvinnutengdra sjúkdóma eins og hreyfi- og stoðkerfissjúkdóma og aukinna geðsjúkdóma. Fólk sé að fara af vinnumarkaði og falli undir örorkukerfið. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekkert verið horft til þess að skoða möguleika á því að minnka álag á fólk. Ég held að þetta eigi ekkert bara við um vinnumarkaðinn, almennt í samfélaginu er orðið rosalega mikið álag og streita sem hefur þessi áhrif. Hvers vegna ekki að hugsa aðeins út fyrir kassann og skoða það að stytta vinnutíma fólks þannig að fólk þurfi ekki að vinna jafn mikið með aukinni sjálfvirknivæðingu í samfélaginu? Allar rannsóknir sýna fram á að framleiðni minnkar ekki við það að vinnutíminn styttist, ef eitthvað er þá eykst hún. Af hverju er ekki horft á þennan þátt og skoðað að stytta vinnutíma fólks til þess að minnka álag þannig að fólk hafi meiri tíma til að sinna fjölskyldu sinni og rækta (Forseti hringir.) sjálft sig frekar en að láta vinnumarkaðinn sjá alltaf um allt? Ég sé bara á fjármálaáætluninni að vinnumarkaðurinn á að sjá um þetta allt saman. Það er ekki (Forseti hringir.) verið að setja neinn pening í að greina vandamálið, rannsaka þetta, hugsa út fyrir (Forseti hringir.) kassann og skoða aðra möguleika.