146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:54]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn áhugaverðara andsvar, tíu mínúturnar myndu henta ágætlega sem ég fékk hérna upp á skjáinn hjá mér til að svara því, en ég er hræddur um að mínúta sé of skammur tími.

Þetta er gríðarlega mikilvægt málefni. Þetta er ekki bara viðfangsefni vinnumarkaðarins sem slíks og við erum að leggja fjármuni í að greina betur leiðirnar inn á örorkuna, hvað veldur þessari auknu örorkutíðni. Það er alveg rétt, stoðkerfis- og geðsjúkdómar eru þar mest áberandi. Það er líka vaxandi örorka meðal ungs fólks sem er mikið áhyggjuefni. Ef við skoðum hvernig örorkubyrðin skiptist milli lífeyrissjóðanna og ríkisins þá sjáum við að mjög stór hluti örorkunnar er í hópi fólks sem hefur litla eða enga sögu á vinnumarkaði. Það er auðvitað sjálfstætt greiningaratriði. En hitt er líka mjög mikilvægt hvernig við drögum úr örorku vegna vinnuslysa, óöryggis á vinnustað, of mikils álags og hvernig við hjálpum fólki við að endurmennta sig út úr slítandi erfiðum starfsgreinum. Svo mætti áfram telja. Þetta leggjum við fjármagn í að gera, bæði að kortleggja þessar leiðir inn í örorkuna en ekki síður (Forseti hringir.) úrræði til þess að spyrna við fótum.