146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu og gagnrýni. Ég er nú ekki sammála öllu því sem kom fram í ræðunni og kemur engum á óvart. Ég staldraði aðeins við orð hv. þingmanns þegar kom að því að það væri kannski ekki þensla alls staðar á landinu. Ég hygg að það sé rétt og við séum sammála um að hugsanlega er hægt að nýta þar tækifæri til að ráðast í innviðauppbyggingu. Við vitum að við höfum ekki staðið okkur í stykkinu undanfarin ár og áratug í þeim efnum. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi hugleitt með hvaða hætti sé hægt að standa þar að verki. Við erum annars vegar að tala um hina félagslegu innviði, svo sem eins og í menntakerfi og heilbrigðiskerfinu, þar sem ég sé nú ekki annað en að ríkissjóður verði að leggja þar til mestan partinn, og svo eru ýmsir hagrænir innviðir. Hagrænir innviðir eru t.d. samgöngur, hafnir o.s.frv. Kemur það til greina hjá hv. þingmanni að þetta verði samstarfsverkefni milli ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, t.d. lífeyrissjóða og annarra fjárfesta? Með hvaða hætti ætti það þá að vera gert? Eða útilokar hv. þingmaður allt slíkt samstarf, hvort heldur það er hér á höfuðborgarsvæðinu en þó sérstaklega úti á landi?