146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir afar vandað andsvar. Ég held að hjörtu okkar slái í takt varðandi framkvæmdir á landsbyggðinni og það sem þar þarf að gera en auðvitað eru það ekki einu svæðin á landinu, við þurfum líka að passa upp á suðvesturhornið. Ég vil ekki að áherslunni sé velt akkúrat í hina áttina. En það sem ég var fyrst og fremst að benda á í ræðunni var að til þess að geta metið einmitt eins og hv. þingmaður nefndi hvers lags verkefni á að fara í til þess að auka ekki á þensluna þurfa að liggja fyrir betri greiningar. Miðað við það sem hagsmunaaðilar tjáðu okkur í hv. fjárlaganefnd höfum við ekki nægilega góðar greiningar á þessum þáttum og í sumum tilfellum alls engar.

Það kom fram hjá Samtökum iðnaðarins að þau ásamt samtökum ráðgjafarverkfræðinga, ég man ekki hvað það félag heitir, eru að fara af stað í vinnu við greiningu á innviðauppbyggingu og fleiru. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert. Við byggjum ekki á slíkum greiningum en erum samt að forgangsraða verkefnum hingað og þangað og berjast við mjög mikla þenslu. Þetta þurfum við bara að vinna betur. Ég hef fengið þær upplýsingar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar frá Vegagerðinni að t.d. framkvæmdir eins og þingmaðurinn nefndi, hafnargerð og vegagerð og fleira, séu ekki þensluhvetjandi verkefni, sérstaklega þegar tekið er tillit til mismunandi stöðu landshluta hvað varðar þensluáhrif.