146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki með tölurnar hérna hjá mér, ég þyrfti að fletta upp í skjalinu sem liggur á borðinu mínu, fjármálaáætlun, varðandi framlög til menningarminja. Hv. þingmaður nefndi sjóvarnir og það sem liggur víða undir skemmdum, t.d. á mínu svæði, Suðurnesjunum, og ég þekki til víðar um land þar sem margir hafa miklar áhyggjur af þessum merkilegu menningarminjum. Eins og hv. þingmaður nefndi erum við ekki með hallir og gamlar miðaldaborgir en þetta er okkar menning, okkar arfur, sem við þurfum að gæta fyrir komandi kynslóðir. Sú stefna endurspeglast því miður ekki í fjármálaáætlun að þarna sé einhver sérstök áhersla lögð, því miður. Það má nefna að á síðasta þingi samþykktu formenn allra stjórnmálaflokkanna að farið yrði í byggingu náttúruminjasafns Íslands en ekkert er um það í fjármálaáætluninni. Þar er enn eitt svikið loforðið til viðbótar á löngum lista sem við horfum upp á núna þessa dagana.