146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:19]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einfaldlega þannig að það sem ég óttast varðandi þessi þyrlukaup er að við kaupum ekki réttu þyrlurnar, í þeim verði ekki þrýstibúnaður svo hægt sé að halda sama þrýstingi inni í þyrlunum og er á jörðu niðri, eins og er í flugvélum. Þyrlur Landhelgisgæslunnar í dag eru ekki með þeim hætti. Það er eitt af því sem þyrfti kannski að taka tillit til. Það má vel vera að Landhelgisgæslan fari í fá sjúkraflug á þyrlum. En það er ekkert skrýtið því að þyrlur hennar eru einfaldlega ekki búnar til sjúkraflugs. Ég veit það ekki, ég sá bara tækifæri fyrir Ísland til að hagræða út frá því að vera með langdrægar þyrlur sem væri hægt að nota til sjúkraflugs og þess háttar og þar af leiðandi vera með tvöfalda vakt bæði yfir sjómönnum og sjúkum á Íslandi, sem er ekki í dag.