146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umfjöllunina um menntamál. Það er náttúrlega nokkuð ljóst að ætlum við okkur eitthvað áfram í þessum heimi verðum við að vera undirbúin undir þær gríðarlegu breytingar sem eru að eiga sér stað. Við þekkjum það að eftir 20–30 ár verða kannski flest þau störf sem börnin okkar eru í, og þau sem fæðast á næstu árum, ekki til á vinnumarkaðnum. Þess vegna þarf menntakerfið að undirbúa framtíðina og íbúa landsins undir það. Þess vegna vekur það athygli sem kemur fram hjá hv. þingmanni og birtist í fjármálaáætluninni, þ.e. sú breyting sem varð á milli fjármálaáætlunar í fyrra upp á 1,4 milljarða til framhaldsskólans. Ég tek eftir því að í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er tekið undir í lið 13 að endurskoða þurfi þetta. En engu að síður skila þeir aðilar engum breytingartillögum. Leggja til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Hvaða áhrif telur ráðherrann, sem hefur verið menntamálaráðherra, að þetta gæti haft á framhaldsskólastigið á næstu fimm árum, að teknir séu þessir fjármunir út þegar við erum í ferli að stytta úr fjórum árum niður í þrjú, sem ég sem fyrrverandi forsætisráðherra var samþykkur? Ég var nú reyndar efasemdarmaður á fyrri stigum þegar þetta var gert. En ástæðan er sú að þetta skilar gríðarlega miklum þjóðhagslegum arði, að fólk komist hraðar í gegnum nám. Ef við berum okkur saman við önnur lönd er margt sem bendir til þess að við getum alveg eins gert það. En það að taka þessa peninga út (Forseti hringir.) frá einu ári til annars, hefur þingmaðurinn séð greiningarnar sem liggja fyrir hvernig þetta er hægt? Hvaða áhrif telur fyrrverandi menntamálaráðherra að þetta gæti haft á skólastarf?