146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og að tæpa á þessu því að það er akkúrat það sem ég held að sé málið með þessa fjármálaáætlun. Ég held að engin ríkisstjórn geti verið svo vitlaus að hún ætli að fara í gegnum heilt kjörtímabil með ekki meiri útgjöld en þau sem er að finna í þessari fjármálaáætlun til málaflokka sem óumdeilt er að þarfnast meiri útgjalda. Þá er aðeins ein leið eftir og það er einkafjármagnið. Það á eftir að koma í ljós hvernig það mun koma inn, hvernig ætlunin er að koma því inn. Í það minnsta er ljóst að það mun mæta harðri andstöðu innan veggja þessa húss.

Og aftur: Sé það raunin á fólk einfaldlega að hafa dug til að tala þannig strax.