146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta að við eigum eftir heilmikið ferli. Ég ætla ekki að gera mér þær grillur að við verðum fullnuma á einu eða tveimur árum í þessum efnum. Við bentum á það í umsögn meiri hluta fjárlaganefndar hvað okkur vantaði upp á. Við gerðum ákveðnar úrbætur. Við breyttum örlítið framsetningu talnalegra upplýsinga, sem var mikið til bóta. Þingmenn Pírata hafa bent á ákveðin atriði, tæki og tól, sem við þurfum að tileinka okkur. Ég held að enginn hafi af ásettu ráði ætlað sér hvorki að svíkjast um að svara spurningum né með neinum hætti ætlað að halda einhverjum upplýsingum frá þingmönnum sem þeir þurfa á að halda.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er einlægur ásetningur allra í fjárlaganefnd, og ég hef ekki skynjað annan anda þar, þó að ég hafi kallað þetta rennsli áðan, kannski vegna bakgrunns úr leikhúsinu sem ég hef með ákveðnum hætti, (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.] ég vil leyfa mér að orða það þannig, að það er að sjálfsögðu mikið vandaverk að fjalla um jafn stórt og (Forseti hringir.) mikilvægt mál og fjármál ríkisins.