146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þarfa umræðu og ráðherra fyrir svörin. Það er nefnilega þannig að við þurfum að huga að því að áætlanir tali saman. Byggðaáætlun þarf t.d. að fléttast saman við samgönguáætlun. Það gerir hún ekki. Ljósleiðaravæðingin bitnar að mestu leyti á sveitarfélögunum sjálfum, sem átti ekki að gerast samkvæmt upphaflegu áætlunum og það viðurkenndi hæstv. ráðherra í rauninni þar sem úthlutunin fór fram eins og var lagt upp með í upphafi.

Varðandi brothættu byggðirnar skiptir máli að samgöngumálin séu í lagi, því að ef þau eru ekki í lagi er lítið hægt að gera fyrir brothættar byggðir í tímabundnum verkefnum. Þetta þarf allt að tala saman og sú er ekki raunin

Skilgreining á grunnþjónustu er það sem við verðum að fara að takast á við sem þing og þjóð. Ef við vitum ekki og getum ekki sett niður fyrir okkur hvað það er sem hvert sveitarfélag, hvert landsvæði á að hafa sem grunnþjónustu (Forseti hringir.) þá komumst við ekkert áfram.