146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég deili í rauninni þeim sjónarmiðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Teits Björns Einarssonar áðan og mun eftir fremsta megni reyna að svara þeim þremur spurningum sem hann beindi til mín á þeim tæpu fimm mínútum sem ég hef.

Auðvitað er það mikilvægt ef við Íslendingar getum státað af miklum fjölbreytileika þegar kemur að matvælaframleiðslu. Ég er sannfærð um að mikil sóknarfæri eru í landbúnaðarframleiðslunni á Íslandi á næstu árum. Það skiptir máli fyrir okkur að við höfum beinan aðgang að fersku hráefni. Flutningsleiðir eru hér á Íslandi mjög stuttar í rauninni og skilja eftir lítið sótspor, sem er mikilvægt. Neyslumynstur hefur breyst umtalsvert á síðustu árum og neytendur gera aðrar og meiri kröfur en áður. Samhliða þessari þróun hefur færst í aukana að ýmsir smáaðilar vilji vinna og framleiða vöru til að selja neytendum beint. Ég held að þetta sé mikið fagnaðarefni. Má í þessu sambandi m.a. benda á samtökin Beint frá býli þar sem fjöldi framleiðenda býður fram vörur sínar. Í síðustu viku fór ég um Suðurland þar sem ég hitti bændur sem voru að kynna framleiðslu sína beint frá býli. Það var gott að finna þennan drifkraft og hugmyndaauðgi og nýsköpunarkraftinn sem er að koma fram hjá bændum víða um land. Það er eitthvað sem stjórnvöld verða að hugsa um að reyna að styðja við, ekki með íþyngjandi reglugerðum heldur frekar opnum.

Það má auðvitað líka segja, talandi um Suðurlandið, að gott er að finna að þessir stóru, eins og SS, sem er einn stærsti vinnuveitandinn á Suðurlandi, sá vinnuveitandi er líka að hugsa um hvernig hægt sé að efla þróun í sínum vörum og koma betur fram til að koma til móts við neytendur. En matvælalöggjöfin hér var innleidd sem hluti af EES-samningnum og tók að fullu gildi í nóvember 2011. Þar er gert ráð fyrir talsverðum sveigjanleika sem gildir víða um hefðbundna framleiðslu og smærri fyrirtæki. Síðan eru þrjár reglugerðir sem við þekkjum sem snúa m.a. að matvælaöryggi og snerta neytandann sem við eigum að hafa í huga, en þær veita ákveðið svigrúm fyrir ýmsa smáframleiðslu og beina afhendingu á vörum.

Varðandi þá spurningu hv. þingmanns hvort leyfa eigi heimaslátrun, ekki aðeins til eigin nota á býli heldur einnig til sölu að því gefnu að vöruverndun og öryggi sé í fyrirrúmi, þá hefur það tíðkast lengi á Íslandi, sem betur fer, að bændur hafa slátrað eigin búfé til eigin neyslu um aldir. Það þekkist auðvitað líka annars staðar. Þetta er leyfilegt og bóndi ber ábyrgð á því sem hann borðar sjálfur og hann hefur vitneskju um aðstæður, heilbrigði viðkomandi gripa o.s.frv. Þess er sérstaklega getið í matvælareglugerðum að þær taki ekki til heimaslátrunar sem slíkrar.

Þær matvælareglugerðir sem ég kom aðeins inn á áðan fjalla m.a. um slátrun og sláturhús á mjög ítarlegan hátt. Sláturhúsum hefur fækkað á Íslandi og sama þróun hefur átt sér stað að mestu um alla Evrópu. Ég tel allrar athygli vert hvað er að gerast í Noregi. Það er eitthvað sem við eigum að líta til, reyndar varðandi ýmsar aðrar afurðir sem við getum rætt um síðar, eins og um sölu á t.d. áfengi sem hægt er að selja á búgörðum þar sem eru aðeins rýmri reglur um en á Íslandi, eitthvað sem við eigum að athuga alla vega síðar meir.

Það er ekkert í dag sem bannar mönnum að setja á stofn sláturhús, hvort sem það er lítið heima á bæ eða stórt iðnaðarsláturhús. Við sjáum það á fyrirspurnum um þetta undanfarin ár, en flestir hafa farið þá leið að vinna frekar áfram eigin afurðir eftir að þeim hefur verið slátrað í einhverjum stærri sláturhúsanna. Talandi um SS þá er greinilegt að þeir eru í ágætissamvinnu við bændur í sínu nærumhverfi, hvort sem eru nautgripa- eða sauðfjárbændur. Það er ýmis þróun þar í gangi.

Bara svo að stóra myndin sé dregin upp af minni hálfu, ég sé að það er lítill tími eftir og ég næ því ekki að svara öllum spurningum, þá vil ég segja að við eigum að gera bændum, ekki síst smábændunum, kleift að geta selt kjötið sitt sjálfir. Við eigum að veita bændum eins mikið svigrúm til að móta afurðir frá sínu býli sjálfir. Það er þróun í þá átt. Auðvitað með þeim fyrirvörum að tryggja matvælaöryggi, rekjanleika, upplýsingar fyrir neytendur, heilbrigðisvottorð o.s.frv. En við eigum að gera allt til að styðja bændur svo þeir geti gert sem mest úr sínum heilbrigðu íslensku vörum sem eru svo frábærar og allir Íslendingar eiga að hafa hjá sér á hverjum degi.