146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Teitur Björn Einarsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og fagna því sem þar kemur fram um vilja til að gera betur í þessum efnum. Ég heyri líka hér í athugasemdum annarra hv. þingmanna breiðan samhljóm, breiðan þverpólitískan stuðning við að við tökum skref í þessa átt, að því gefnu að við höfum í huga þau sjónarmið sem hér eru uppi og ég kom inn á í máli mínu sem snúa að matvælaöryggi, ábyrgð framleiðanda og rekjanleika vöru þannig að ávallt sé um að ræða góða og heilnæma afurð.

Hér var komið inn á alvarlegt mál sem snýr að dýravelferð. Þessir löngu flutningar landshorna á milli hljóta vera ástæða fyrir okkur til að skoða af miklum krafti hvort hægt sé að koma upp þannig fyrirkomulagi, stigskiptingu krafna sem eru gerðar til sláturhúsa til að mynda, það er alla vega eitt atriði, sem og umhverfismálin, að takmarka umhverfissporið sem af þessu leiðir.

Aðalatriðið er að þetta snýr ekki eingöngu að búfénaði, þá sérstaklega að sauðfjárrækt sem er sannarlega mikilvægt og aðkallandi í þeim efnum, heldur að öllum þeim tækifærum sem er að finna í hinum dreifðu byggðum landsins, þar eru ýmiss konar afurðir, hvort sem þær tengjast grænmetisræktun eða kjötvinnslu. Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra kom inn á, að sjálfsögðu eru margvísleg tækifæri sem snúa að ýmiss konar áfengisframleiðslu, bjórframleiðslu í héraði eða annars konar áfengisframleiðslu sem hægt er að sjá fyrir. (Forseti hringir.)

Ég fagna þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra svör hennar. Ég hvet hana eindregið til dáða í þessari vinnu á kjörtímabilinu.