146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

málefni Hugarafls.

491. mál
[11:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hvort fram hafi farið úttekt eða mat á starfsemi samtakanna Hugarafls áður en fjárveitingar til starfseminnar voru lækkaðar svo mikið sem raun er á í fjárlögum fyrir árið 2017, eins og hún orðar fyrirspurnina. Þá vil ég segja að það er mikilvægt að fram komi að framlag frá velferðarráðuneytinu til Hugarafls eins og til margra annarra sambærilegra félaga, bæði árið 2016 og 2017, var í formi styrkja sem veittir eru árlega til ýmissa félagasamtaka og eru breytilegir á milli ára og markast m.a. af fjölda umsókna og heildarfjárhæð til úthlutunar. Ekki var um að ræða fastar fjárveitingar. Styrkir til félagasamtaka eru veittir á grundvelli upplýsinga sem koma fram í umsóknum. Um var að ræða úthlutun velferðarstyrkja til Hugarafls árin 2016 og 2017 ásamt með styrkjum til margra annarra félagasamtaka.

Velferðarráðuneytið hefur ekki óskað eftir sérstakri úttekt eða mati á starfsemi samtakanna en hefur óskað eftir ársreikningi Hugarafls fyrir árið 2016 sem barst núna 3. maí sl.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn hverjar séu meginforsendur þess að fjárveitingar til starfsemi Hugarafls voru lækkaðar svo mjög. Því er til að svara að Hugarafl hefur fengið styrki sem félagasamtök og eru þeir ætlaðir til að styrkja félagsstarf samtakanna. Ekki er um að ræða fjárveitingar vegna veittrar heilbrigðisþjónustu. Hins vegar þegar um er að ræða fjárveitingar ríkisins til verkefna á sviði endurhæfingar geðsjúkra eru þær annars vegar í gegnum fastar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana, sem m.a. annast endurhæfingu, og hins vegar í gegnum samninga sem Sjúkratryggingar Íslands gera fyrir hönd ráðherra um veitingu heilbrigðisþjónustu. Þegar um er að ræða styrki til félagasamtaka er í október ár hvert auglýst eftir umsóknum um svokallaða velferðarstyrki. Hér er um að ræða styrki á þeim málasviðum sem heyra undir ráðherrana tvo í velferðarráðuneytinu. Við úthlutun þeirra styrkja hefur verið lögð áhersla á að verklag við úrvinnslu umsókna sé eins gagnsætt og nokkur kostur er. Einnig er gætt að samræmingu við meðferð umsóknanna þannig að aðilum sé ekki mismunað. Úthlutun fjárins byggist á reglum sem settar hafa verið af ráðherra um styrki á safnliðum fjárlaga velferðarráðuneytisins sem veittir eru ár hvert.

Á síðustu árum hefur Hugarafl fengið styrki af fjárlagaliðum sem tilheyra félags- og jafnréttismálaráðherra annars vegar og heilbrigðisráðherra hins vegar. Samanlagt fengu samtökin 2 millj. kr. árið 2014, 6 millj. kr. árið 2015 og 8 millj. kr. árið 2016. Árið 2017 ákvað ég að úthluta Hugarafli styrk af þeim safnliðum fjárlaga sem heilbrigðisráðherra hefur umboð til og hljóðaði sú fjárhæð upp á 1.548.750 kr. Sú ákvörðun byggði eins og fyrr segir á reglum sem unnið hefur verið eftir á undanförnum árum og byggir m.a. á fjölda félagsmanna í samtökunum. Ég hef ekki forsendur til að ræða úthlutun annarra ráðherra á styrkjum en bendi þó á að úthlutun styrkja er í eðli sínu misjöfn eftir árum þar sem misjafnt er hversu miklu fjármagni er til að dreifa og hver fjöldi umsóknar er hverju sinni.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvort ráðherra hafi rætt málefni Hugarafls við forráðamenn samtakanna eða hyggist gera það. Því er til að svara að mánudaginn 10. apríl sl. átti ég góðan fund með fulltrúum Hugarafls og var fundurinn haldinn í velferðarráðuneytinu. Á fundinum komu fram mikilvægar upplýsingar um starf samtakanna og auk þess var rætt um styrkveitingar velferðarráðuneytisins til félagasamtaka. Auk þessa hafa aðstoðarmenn mínir átt samtöl við fulltrúa samtakanna.

Að lokum er spurt hvert ráðherra telji að hlutverk samtaka á borð við Hugarafl sé eða eigi að vera. Því er til að svara að ég tel að frjáls félagasamtök gegni mikilvægu hlutverki á sviði heilbrigðismála. Fjöldi fólks sinnir ýmsu starfi í sjálfboðavinnu og leggur fram krafta, reynslu og þekkingu. Starfsemi frjálsra félagasamtaka er mikilvægur hluti af félagsauði samfélagsins og verður ekki metin til fjár. Þá erum við með mikilvæg dæmi úr okkar sögu þar sem frjáls félagasamtök hafa komið á fót þjónustu sem ekki hefur verið í boði annars staðar. Dæmi um það er t.d. Reykjalundur sem er í eigu frjálsra félagasamtaka en er nú rekið með þjónustusamningi við ríkið, m.a. um endurhæfingu fólks með geðraskanir. Félög notenda heilbrigðisþjónustu eru ekki síst mikilvæg til að gæta að réttindum félaga sinna og koma á framfæri skoðunum sínum og reynslu af heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna tel ég að samráð við félög notenda við stefnumótun í heilbrigðismálum sé afar mikilvægt. Ég tel að yfirvöld eigi að styrkja slík samtök til þessara verka en þar verða yfirvöld að hafa í huga að allir sitji við sama borð. Eftir því hef ég unnið.

Að lokum vil ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna, fyrir að vekja máls á þessu hlutverki frjálsra félagasamtaka sem ég tel afar mikilvægt á flestum sviðum samfélagsins og hlakka til umræðunnar.