146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttisstofu.

545. mál
[12:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er nýlegt brot hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögum þar sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að hæstv. forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karlmann í starf skrifstofustjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins í stað konu sem talin var jafnhæf. Samkvæmt úrskurðinum kemur fram að þó að sá sem veitir slíka stöðu hafi nokkurt svigrúm til að velja þau málefnalegu sjónarmið sem hann hyggst leggja til grundvallar ákvörðun sinni um val á hæfasta umsækjanda í embætti, sé mikilvægt að vanda til undirbúnings og brýnt að gögn liggi fyrir sem varpað geti ljósi á það mat sem fram fer á grundvelli viðtals.

Niðurstaða úrskurðarins var að slík gögn væru ekki fullnægjandi, að viðtölin hefðu ekki verið stöðluð með sama hætti og viðtöl hjá hæfnisnefnd, að umsækjendur hefðu ekki fengið sérstaka vitneskju um efni viðtala og að efni einnar spurningar hefði falið í sér að þekking á starfsháttum og mannauði viðkomandi skrifstofu hefði gefið þeim forskot sem skipaður var, enda starfsmaður skrifstofunnar. Því taldi kærunefndin að hinn kærði hefði ekki getað sýnt fram á að viðtölin hefðu í raun leitt í ljós að sá sem hefði verið skipaður hefði verið hæfari til að gegna embættinu en kærandi.

Því er við er að bæta að það hallar á konur í þessum embættum, þ.e. embættum skrifstofustjóra hjá viðkomandi ráðuneyti.

Þetta er ekki fyrsta málið þar sem ráðherrar gerast brotlegir við jafnréttislög. Við þurfum að halda því haga til að allrar sanngirni sé gætt að ráðherrar hafa fengið slíka úrskurði áður; fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, þó að úrskurðirnir séu auðvitað ólíkir sín í milli.

Við erum með lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem fer með málefni jafnréttismála: Telur hann ástæðu til þess að endurskoða þau lög þannig að skilgreind verði einhvers konar viðbrögð eða viðurlög þegar kærunefndir úrskurða með þessum hætti? Vissulega er stundum samið um einhverjar bætur eða eitthvað slíkt, en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig bregðast á við þegar svona úrskurður fellur, sem er samt gríðarlega stórt mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Ef hann telur að svo sé, hefur hann einhverjar hugmyndir um slík viðbrögð, hver þau gætu verið, í ljósi þess að þetta er ekki í fyrsta dæmið um brot á þessum lögum? Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að efla starfsemi Jafnréttisstofu, sem er sú stjórnsýslustofnun sem sér um að fylgja þessum lögum efti? Þarf hún að fá frekari eflingu eða jafnvel frekari heimildir í lögum til að tryggja markmið laganna?