146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Er hægt að verðleggja hamingju og vellíðan? Þessi spurning leitar á hugann eftir langa umræðu um ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar undanfarna daga. Er hægt að meta fjárhagslegt virði þess hvernig börnum okkar líður í skóla eða foreldrum okkar á öldrunarstofnunum? Eigum við að nota einhvers konar reiknireglu til að segja okkur hvernig barni líður sem býr við þær aðstæður að geta ekki boðið í afmælisveislu eða hvernig eldri borgarar geti notið lífsins á öldrunarstofnunum eftir að hafa skilað samfélaginu ómældri vinnu í gegnum tíðina? Hvað með öryrkjana og láglaunafólkið sem getur vart framfleytt sér, á það rétt til mannsæmandi lífs? Hvað með unga fólkið sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið? Skiptir þetta einhverju máli?

Auðvitað skiptir þetta allt máli og þess vegna höfum við Vinstri græn lagt fram tillögur til þess að koma til móts við það ákall sem komið hefur fram í samfélaginu og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar um að bæta kjör og byggja upp innviði, loforð sem stjórnarflokkarnir eru nú á hröðum flótta frá en við Vinstri græn viljum standa við. Velferð snýst nefnilega ekki um prósentur, hagsveiflu eða niðurstöður excel-skjals.

Okkar hlutverk á þingi er að standa vörð um jöfn tækifæri fólks, barna jafnt sem fullorðinna. Það eru mannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja, ekki síst gagnvart þeim sem standa höllum fæti, hafa verið beittir órétti eða einhvers konar mismunun.

Núverandi ríkisstjórn sýnir ekki í verki að hún leggi áherslu á jöfnuð en það kemur líklega ekki á óvart. Heilbrigðismálin, hvort sem um er að ræða stóru sjúkrahúsin eða lágmarksþjónustu á landsbyggðinni, samgöngumálin bæði á vegum og hið rándýra innanlandsflug, löggæslan, skólamálin — allt er þetta vanfjármagnað enda er þetta hægri stjórn og hagar sér sem slík. Hinum efnameiri er áfram hlíft við skattgreiðslum og minna og minna fer í samneysluna.

Ísland er velmegunarsamfélag og það á að vera forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti, að allir geti notið velferðarkerfisins, að allir sem vilja geti sótt sér menntun, að allir hafi raunverulegt val til búsetu og þeir sem geta leggi jafnframt sitt af mörkum til að viðhalda því.

Við eigum ekki að taka því þegjandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, að ekki séu til peningar til að standa við kosningaloforðin, byggja upp innviðina og hlúa að þeim sem hafa það skítt í samfélaginu eða þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því að fjárhagurinn leyfir það ekki. Hvenær ef ekki nú, í bullandi góðæri?

Góðir landsmenn. Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er öllum augljós og ríkisfjármálaáætlun er ein af birtingarmyndum hans. Þar skila fulltrúar meiri hlutans áliti sem frestar ákvarðanatökum um grundvallarramma fjármálanna fram til haustsins og reynt er að sópa ágreiningnum undir teppið. Þau standa ekki að baki forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem setja trúverðugleika sinn svo sannanlega að veði með því að ætla ekki að hvika frá ákvörðuninni um hækkun virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna eins og kom hér fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan.

Um eitt er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þó sammála, að auka einkavæðingu og minnka samneyslu. Saman leggja þau upp með að svelta hið opinbera kerfi og veikja til þess að rýmka fyrir „fjölbreyttum rekstrarformum“ eins og þeim verður tíðrætt um. Ráðherra leynir fyrir þingnefndum fyrirhuguðum einkavæðingaráformum og hunsar samtal við þá sem málið snýst um. Það er í raun ógnvekjandi að ríkisstjórnin fái að starfa óáreitt í sumar því að hver veit hvað verður búið að einkavæða í sumar.

Kæru landsmenn. Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem lafir á lyginni og er með slíka blekkingaleiki, ríkisstjórn sem hangir saman valdsins vegna.

Ef raunverulegur vilji er til að byggja réttlátt samfélag sameinumst við um að setja velferð barna, elstu borgara landsins, öryrkja og þeirra sem standa höllum fæti í lífinu í forgang. Því segi ég við ykkur, kæru landsmenn, að það er afar brýnt að koma þessari hægri stjórn frá og til þess þurfum við að standa saman og við þurfum líka ykkar aðstoð.