146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:06]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að stíga inn á vettvang Alþingis núna þegar hillir undir lok þingsins og rýna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem segja má að sé meginafrakstur þessa þingvetrar. Hún virðist í einfaldri mynd ganga út á þrennt út frá mínum sjónarhóli: Samdrátt í ríkisrekstri, lágmarksfé í uppbyggingu innviða og að létta skattbyrði af þeim efnaðri. Þessari stefnu er svo ætlað að keyra áfram nútímalegt og blómlegt samfélag byggt á nýsköpun og grænum atvinnuháttum sem er svolítið í anda atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug, en það verður ekki bæði sleppt og haldið. Nýsköpun verður ekki til upp úr engu og sprotar fæðast ekki í fjársveltu menntakerfi. Ferðaþjónusta þrífst illa á holóttum malarvegum, einfasa rafmagni og ótraustu netsambandi. Þessir breyttu atvinnuhættir og sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir útheimtir einfaldlega verulega öflugri innviði og sterkari samrekstur. Það er bleikur fíll í þessu líka. Það er engin alvöru peningastefna til að jarðtengja fjármálaáætlunina, engin sátt um það hvernig skuli ná stjórn á ofrisi krónunnar.

Það er svo komið að við Íslendingar erum orðin vön því að hugsa og reka okkur sjálf eins og vogunarsjóðir sem þrífast best í áhættu og óvissu. Kjarni vandans birtist svo þegar þessir stóru gallar fjármálaáætlunarinnar leggjast allir saman á eitt, það myndast olía á eld ójöfnuðar. Óstöðugleiki og veik samneysla eykur ójöfnuð. Það er ójöfnuðurinn sem er mesta áhyggjuefni stjórnmálanna um allan heim. Með breikkandi bili fjölgar reiðum á öðrum endanum og firrtum á hinum endanum. Verst af öllu er svo að á endanum geta jaðrarnir náð saman þannig að réttlát reiði þeirra sem of lítið hafa umbreytist í byr í segl þeirra firrtu. Þá geta myndast kjöraðstæður til að rækta pólitísk skrímsli í skápum sem allt of víða í alþjóðlegum stjórnmálum hafa verið að láta á sér kræla undanfarið. Það vill held ég ekkert okkar fara þangað, en þá verðum við líka að taka beygjuna þegar kemur að næstu gatnamótum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna