146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:13]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Frú forseti. Nú er mér nokkur vandi á höndum. Ég svaraði auðvitað bara sjálfkrafa já, þegar ég var beðinn um að eiga orðastað við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé, og taldi víst að þar væri eitthvert það málefni uppi sem við værum núna að fjalla um í atvinnuveganefnd. Ég heyrði einu sinni hv. þingmann hafa þann formála að máli sínu hér: Ja, ég hef nú ekki kynnt mér þetta nákvæmlega en ég vil samt segja ...

Ég missti því miður af þeim hluta ræðunnar hjá hæstv. ráðherra sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé vísar til í sinni tölu. Ég treysti mér bara ekki til að hafa skoðun á því hvort deilur um rammann á kjörtímabilinu 2009–2013 séu skýringin á því hvar við stöndum akkúrat núna. Ég held þó að það verkefni hljóti að blasa við okkur nú í haust, þegar þing kemur saman aftur, að fjalla um flutnings- og dreifikerfið á raforkunni og að leysa verði þau mál sem kaldari svæði landsins búa við, ekki síst á Norðausturlandi og þar um kring.

Ég get svo sem ekki svarað þessu að öðru leyti en svona. Ég get þó sagt að mér finnst líklegt að ég sé sammála ráðherranum í því sem hann sagði í gær, en nákvæmlega það sem hv. þingmaður vísar til heyrði ég því miður ekki í ræðu hans og treysti mér ekki til að segja hvaða rætur núverandi staða eigi í deilunum um rammann á þarsíðasta kjörtímabili.