146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Nú þegar mínum fyrsta þingvetri hér er að ljúka langar mig aðeins að velta fyrir mér þeim hlutverkum sem við tökum að okkur hér inni. Hér inni eru tveir hópar, stjórn og stjórnarandstaða. Þetta minnir mig dálítið á skóla. Þar inni eru líka tveir hópar, kennarar og nemendur. Kennararnir aðeins færri en þeir tala töluvert meira. Alltaf þegar maður kemur í stofuna er einhver kennari að segja eitthvað og svo hættir hann og kemur annar kennari og segir eitthvað. Nemendurnir taka helst til máls til að kynna einhver verkefni. Þá kemur strax einhver kennari og segir: Þetta er nú ekki gott. Þetta er alls ekki vel unnið. (Gripið fram í: Í hvaða skóla ertu?) Seint skilað. Ekki vel gert. Þetta var ekki svona þegar ég var nemandi. Þá unnum við langt fram á kvöld, skiluðum öllu á réttum tíma. Þetta er ekki svona.

Þegar kennarar tala og fáir nemendur mæta er kvartað: Af hverju er enginn nemandi mættur? Ég er búinn að undirbúa hérna fína ræðu og svo bara kemur enginn. Svo bara kemur enginn.

Mér finnst þetta svolítið svipað og ég neita því ekki að mér hefur oft þótt þetta mjög skemmtilegt ár. Mig langar að nýta þetta tækifæri, sem er líklegast seinasta skiptið sem ég fæ að tala undir liðnum um störf þingsins, til að þakka kennurum og nemendum kærlega fyrir samstarfið það sem af er árinu. Hver veit, kannski mun ég, ef mér gengur vel í þessu starfi, dag einn ná að útskrifast og verða einhvern tímann kennari hér við skólann. Takk fyrir.