146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

333. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, EES-reglur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda aðila, m.a. frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, og umsagnir um málið komu frá fjölmörgum sveitarfélögum, Hafnarfjarðarbæ, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sorpu bs., auk Umhverfisstofnun.

Frumvarpið var áður lagt fram á 145. löggjafarþingi, 670. mál, en náði ekki fram að ganga. Helstu breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu frá framlagningu þess er sú að ekki er lengur gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun verði veitt heimild til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota gegn ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpinu er ætlað að innleiða EES-gerðir, gera nauðsynlegar lagfæringar á lagagreinum og fyrri innleiðingum og gera þá breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, að heimila töku umsýsluþóknunar fyrir ál, sem m.a. er nauðsynleg vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á áli og styrkingar íslensku krónunnar. Um nánari útlistun á efni frumvarpsins vísast til 3. kafla greinargerðar þess.

Á fundi með nefndinni sem og í umsögn sinni um málið mótmælir Umhverfisstofnun því að í fyrirliggjandi frumvarpi sé ekki að finna ákvæði sem heimili stofnuninni að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilteknum ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs, líkt og var í frumvarpinu sem lagt var fram á síðasta þingi. Stofnunin telur mikilvægt að lögfesta slíka heimild sem fyrst þar sem lögbrot á sviði úrgangsmála verði sífellt algengari og stórfelldari og brýn þörf sé á skilvirkum þvingunarúrræðum, ekki síst með tilliti til almennra varúðaráhrifa. Sú afstaða ráðuneytisins að betra sé að bíða með innleiðingu ákvæðisins til næsta löggjafarþings svo það megi innleiða samhliða innleiðingu sambærilegs ákvæðis í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir sé illa rökstudd og engin ástæða sé til að bíða með innleiðingu þess. Að öðru leyti en þessu sé stofnunin hlynnt samþykkt frumvarpsins, enda hafi það verið unnið í ríku samráði við stofnunina.

Nefndin hefur fengið þær upplýsingar frá ráðuneytinu að ákveðið hafi verið að bíða með innleiðingu stjórnvaldssektarákvæðisins að sinni, einkum vegna þeirrar gagnrýni sem kom fram um nauðsynleg skref og tímaramma. Ráðherra kynni Alþingi skipun starfshóps og stöðu mála á haustþingi 2017.

Í 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins er varðar gildistöku er að finna þá villu að í stað 2. mgr. 64. gr. a átti að standa 4. mgr. Var ákvæðið nauðsynlegt vegna breytinga sem til stóð að gera með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vegna breytingartillagna sem meiri hluti nefndarinnar gerir við það frumvarp og fela í sér að útgáfa starfsleyfa fyrir tiltekna starfsemi verði áfram í höndum heilbrigðisnefnda er ekki lengur tilefni til að halda þessu gildistökuákvæði inni. Leggur nefndin því til að 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins falli brott. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

2. mgr. 20. gr. falli brott.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál eins og fram hefur komið.

Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifaði undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Aðrir nefndarmenn sem undir þetta skrifa eru hv. þingmenn Valgerður Gunnarsdóttir, formaður, Ásmundur Friðriksson, framsögumaður, og Bryndís Haraldsdóttir, eins og hér hefur komið fram, Daníel E. Arnarsson, Einar Brynjólfsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Pawel Bartoszek og Teitur Björn Einarsson.