146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

333. mál
[15:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætum framsögumanni fyrir ræðuna. Ég tek undir það sem þar kom fram, enda skrifuðum við undir nefndarálitið saman.

Ég ætlaði rétt svo að hnykkja á því sem er skilningur minn og fleiri í minni hlutanum hvað varðar heimild til álagningar stjórnvaldssekta. Hvað mig varðar tek ég undir það með Umhverfisstofnun að mikilvægt sé að lögfesta slíka heimild sem fyrst þar sem lögbrot á sviði úrgangsmála verða sífellt algengari og stórfelldari og brýn þörf á skilvirkum þvingunarúrræðum, ekki síst með tilliti til almennra varúðaráhrifa.

Þar sem ráðuneytið hefur upplýst að verið sé að vinna að innleiðingu stjórnvaldssektarákvæðis, bæði í þessu máli og fleiri málum sem eru á könnu ráðuneytisins, þá féllumst við á að það væri réttur farvegur til að beina þessum málum í. Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á og las upp úr nefndarálitinu kynnir ráðherra Alþingi skipun starfshóps og stöðu mála á haustþingi 2017. Það er sem sagt rík áhersla frá okkur að farið verði í þá vinnu hvað varðar stjórnvaldssektir, en okkur þótti skynsamlegt að taka heildstætt á þeim málum og því er þessi leið lögð til hér.