146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[17:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Nichole Leigh Mosty hefur farið ágætlega yfir nefndarálit sem allir í hv. velferðarnefnd skrifa undir. Ég vildi koma hingað upp til að taka undir það að ég held að sú breytingartillaga sem þar er lögð fram sé gríðarlega mikilvæg og ég vil lýsa því yfir að ég styð hana heils hugar. Ég tel að það að greina hvaða áhrif fjárveitingar í þessum málaflokki hafa á líf fatlaðs fólks sé alltaf skoðað við fjárlagagerð og sé óskaplega mikilvæg og muni skila sér í bættum hag fatlaðs fólks. Og ég vil bara endurtaka að ég tek heils hugar undir hana.

En mig langar líka að ítreka sérstaklega og taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Ágústu Þórdísardóttur áðan að hér er um jaðarsettan hóp að ræða. Þess vegna skiptir það miklu máli hvernig svona stefna er orðuð. Mig langar að undirstrika mikilvægi þýðinganna og beina því til hæstv. ráðherra og ráðuneytisins að gera skurk í þeim efnum að laga þýðingarnar og samræma þær vegna þess að orðalag skiptir alveg óskaplega miklu máli í þessum málaflokki, bæði efnislega og að það sem samningurinn um réttindi fatlaðs fólks er að segja skili sér, en líka vegna þess að með orðalaginu erum við að stuðla að viðhorfsbreytingum í garð jaðarsetts hóps. Þess vegna skiptir svo óskaplega miklu máli að orðalagið sé hafið yfir allan vafa. Það er það því miður ekki, eins og sést t.d. á umsögnum um þetta mál. Það er eiginlega sárgrætilegt að við séum í þeirri stöðu að nú tíu árum eftir að skrifað var undir samninginn séum við ekki enn þá komin með þýðingu sem er ásættanleg og í rauninni séu fjórar þýðingar í gangi og það sé þýðing númer þrjú í röðinni sem er af fræðasamfélaginu talin best. Þetta er náttúrlega alveg óboðleg staða. Ég vil bara taka undir með velferðarnefnd og ítreka hversu mikilvægt það er að laga þetta mál. Þar er ábyrgð ráðuneytisins auðvitað mjög mikil.

En mig langar líka að ítreka að vegna þess að talað er um það í nefndarálitinu að samhliða því að frumvörp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem og frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem eiga að verða tekin fyrir á haustþingi, þurfi að skoða vel framkvæmdaáætlun þessa með tilliti til laga, tilvísana og orðalags. Ég vil undirstrika mikilvægi þess að við vinnuna við þau frumvörp sem og það að ef farið verður í að taka þetta mál upp verði haft samráð við fatlað fólk og/eða hagsmunasamtök þess. Því það skiptir rosalega miklu máli og fellur algerlega undir slagorð Öryrkjabandalagsins: Ekkert um okkur án okkar. Það er svo mikilvægt í þessum málum sem og að hafa gott samráð við fræðasamfélagið. Mig langar þar að nefna sérstaklega fötlunarfræði í Háskóla Íslands. Það er reyndar svo skemmtilegt að á Íslandi er talsverð skörun þar sem fatlað fólk er einnig að finna innan fræðasamfélagsins. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að virkja þá dýrmætu reynslu þar sem er fólk sem þekkir það að vera fatlað af eigin reynslu en hefur líka fræðilega bakgrunninn. Að nýta þetta. Það eigum við á Alþingi auðvitað að gera.

Það komu mjög margar ábendingar í umsögnum um þessa framkvæmdaáætlun, en ekki eru gerðar breytingartillögur varðandi þær allar, en ég held að það sé mjög mikilvægt engu að síður að við lesum þær og skoðum þær mjög vel einmitt vegna þess að það á í haust að fara að gera stærri breytingar á öðrum málum. Ég held að þessar athugasemdir skipti máli inn í þá vinnu en endurtek það sem ég sagði hér í upphafi að ég tel að sú breytingartillaga sem hér er lögð til sé málinu öllu mjög til bóta og vona svo sannarlega að málið verði samþykkt með henni.